Enski boltinn

Leicester City búið að reka Nigel Pearson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Pearson fagnar sigri með  Marcin Wasilewski.
Nigel Pearson fagnar sigri með Marcin Wasilewski. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið Leicester City hefur látið knattspyrnustjórann Nigel Pearson taka pokann sinn þrátt fyrir flottan árangur liðsins á sínu fyrsta ári í deild þeirra bestu í Englandi.

Leicester City tilkynnti um brottreksturinn á heimasíðu sinni en Nigel Pearson hefur verið knattspyrnustjóri félagsins frá 2011.

Ástæða þess að Pearson var rekinn er sögð vera ágreiningur hans og eigendanna Vichai og Aiyawatt Srivaddhanaprabha um næstu skref hjá félaginu.

Nigel Pearson tók við Leicester-liðinu í nóvember 2011 þegar liðið varð í 12. sæti ensku b-deildarinnar en liðið hefur hækkað sig öll fjögur tímabilin undir hans stjórn. Liðið endaði í 9. sæti 2011-12, í 6. sæti 2012-13 og svo í 1. sæti 2013-14 sem tryggði sæti liðinu sæti í ensku úrvalsdeildinni á nýjan leik.

Leicester City tryggði sér fjórtánda sætið í ensku úrvalsdeildinni á nýloknu tímabili með því að vinna sjö af síðustu níu leikjum sínum.

Craig Shakespeare og Steve Walsh munu sinna starfi Nigel Pearson á meðan félagið leitar að nýjum knattspyrnustjórna en enska úrvalsdeildin fer aftur af stað í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×