Innlent

Leggja til að kosið verði á milli tveggja efstu fái enginn meirihluta atkvæða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árið 2012 var Ólafur Ragnar endurkjörinn forseti Íslands með 52,8% gildra atkvæða en hans helsti mótframbjóðandi, Þóra Arnórsdóttir, hlaut þá 33,2% gildra atkvæða.
Árið 2012 var Ólafur Ragnar endurkjörinn forseti Íslands með 52,8% gildra atkvæða en hans helsti mótframbjóðandi, Þóra Arnórsdóttir, hlaut þá 33,2% gildra atkvæða. Vísir/gva/vilhelm
Þingmenn Bjartrar framtíðar leggja til að fái enginn einn forsetaframbjóðandi meirihluta atkvæða í forsetakosningum verði kosið á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá í fyrstu kosningu.

„Lagt er til að forseti verði kjörinn með meira afgerandi hætti en verið hefur þannig að ef enginn frambjóðandi til embættis forseta Íslands fær meiri hluta gildra atkvæða í kosningu skuli kosið aftur milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði fengu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Af þeim fimm sem hafa gegnt stöðu forseta Íslands frá árinu 1944 hefur aðeins einn tekið við embætti forseta með meirihluta atkvæða í kosningu. Það var Kristján Eldjárn árið 1968 þegar hann hlaut 66,6 prósent atkvæða. Síðan hafa forsetar hlotið endurkjör ýmist með meirihluta atkvæða eða án mótframboðs sem er algengara.

„Sá frambjóðandi sem flest fær atkvæði í seinni umferðinni verður rétt kjörinn forseti. Það er mat flutningsmanna að með þessari aðferð fáist skýrari og meira afgerandi niðurstaða í forsetakosningum sem endurspegli betur raunverulegan vilja kjósenda,“ segir í greinargerðinni.

Frumvarpið og greinargerðina má lesa hér. Forsetakosningar fara fram í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×