Körfubolti

LeBron setti hárbandið aftur á sig og pakkaði Bulls saman

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cleveland Cavaliers vann Chicago Bulls, 108-91, á heimavelli í öðrum leik liðanna í undanúrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt og jafnaði með því einvígið, 1-1.

LeBron James, sem hefur spilað stóran hluta tímabilsins án hárbandsins fræga, setti það aftur á sig í nótt og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum.

LeBron átti stórleik og skoraði 33 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, en hann tróð eins og enginn væri morgundagurinn og lét gestina frá Chicago vita að þessi sería yrði engin gönguferð í garðinum fyrir Bulls þó Cleveland vanti Kevin Love og J.R. Smith.

Kyrie Irving, leikstjórnandi Cleveland, bætti við 21 stigi og þá kom James Jones inn af bekknum og skilaði 17 stigum fyrir heimamenn, en serían heldur nú til Chicago þar sem næstu tveir leikir verða spilaðir.

Hjá Chicago náði sér enginn almennilega á strik. Derrick Rose gældi við þrennu með 14 stigum, 10 stoðsendingum og 7 stoðsendignum. Hann hitti þó aðeins úr sex af 20 skotum sínum.

LeBron James fer illa með Jimmy Butler:


Houston Rockets jafnaði einnig einvígi sitt gegn Los Angeles Clippers, 1-1, með sigri á heimavelli, 115-09, í nótt.

Eins og vanalega var James Harden stigahæstur hjá Houston, en hann lenti þó snemma í villuvandræðum og þurfti að sitja á bekknum stóran hluta þriðja leikhluta. Hann hafði þá skoraði 16 stig.

Harden brást ekki samherjum sínum og skoraði 16 stig bara í fjórða leikhluta. Hann endaði með 32 stig og 7 stoðsendingar auk þess sem hann hitti úr öllum 15 vítaskotum sínum.

Dwight Howard átti einnig stórleik og skoraði 24 stig og tók 16 fráköst, en allt byrjunarlið Houston skoraði yfir 10 stig.

Blake Griffin var stigahæstur á vellinum, en hann skoraði 34 stig og tók 15 fráköst fyrir CLippers-liðið. Jamal Craword kom eins og alltaf öflugur inn af bekknum og skoraði 19 stig.

Rimman færir sig nú um set til Los Angeles þar sem næstu tveir leikir verða spilaðir.

Stórleikur James Hardens: Dwight Howard óstöðvandi:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×