Körfubolti

LeBron sagði upp samningnum við Cleveland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
LeBron James hefur nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum og verður samningslaus frá og með 1. júlí samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla.

Fréttavefur ESPN greinir frá því að James muni þó að öllum líkindum vera um kyrrt hjá Cleveland Cavaliers og gera nýjan samning við félagið í sumar.

Talið er líklegt að James muni bíða og sjá hvernig Cleveland gengur frá sínum leikmannamálum þegar opnað verður fyrir markaðinn og hvað verður um samningamál leikmanna eins og Tristan Thompson, Kevin Love og Imam Shumpert.

Líklegasta niðurstaðan er sú að James geri nýjan eins árs samning við Cleveland sem tryggi honum 22 milljóna dollara í tekjur og skoði síðan sín samningsmál upp á nýtt eftir ár þegar félögin hafa meira svigrúm í launamálum þegar launaþakið svokallaða verður hækkað.

James fór með Cleveland alla leið í lokaúrslit NBA-deildarinnar í vor þar sem liðið tapaði þó fyrir Golden State Warriors.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×