Körfubolti

LeBron James bætti met Scottie Pippen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James setti nýtt NBA-met í nótt þegar hann hjálpaði liði sínu Cleveland Cavaliers að vinna 102-93 sigur á Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta.

LeBron James er nú sá framherji sem hefur gefið flestar stoðsendingar í sögu deildarinnar en gamla metið átti Scottie Pippen, Heiðurshallarmeðlimur og sexfaldur NBA-meistari með Chicago Bulls.

LeBron James gaf alls ellefu stoðsendingar í leiknum en hann setti metið þegar hann gaf á Kevin Love sem skoraði með þriggja stiga skoti þegar 6:26 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Það var stoðsending númer fimm hjá honum í leiknum.

Scottie Pippen gaf á sínum tíma 6135 stoðsendingar en þetta var stoðsending númer 6136 hjá James. James er á sínu tólfta ári í deildinni og hefur gefið 6,9 stoðsendingar að meðaltali í leik á NBA-ferlinum. Pippen gaf 5,2 stoðsendingar að meðaltali á sautján ára ferli sínum.

James er aðeins þrítugur og á því mörg ár eftir til að bæta enn frekar við þetta met. „Þetta er mikið afrek að mínu mati. Hann er nýorðinn þrítugur og að bæta met svona snemma segir mikið til um hvernig leikmaður hann er. Hann hefur mikla hæfileika til að gera aðra betri í kringum sig og það er tilkomumikið," sagði David Blatt, þjálfari Cleveland Cavaliers.

Flestar stoðsendingar hjá framherjum í NBA-deildinni:

LeBron James 6142

Scottie Pippen 6135

John Havlicek 6114

Larry Bird 5696

Kevin Garnett 5375

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×