Körfubolti

LeBron bað um ís og að sjálfsögðu fékk kóngurinn ís

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og dóttir hans á góðri stundu.
LeBron James og dóttir hans á góðri stundu. Vísir/Getty
LeBron James er ekki kallaður kóngurinn í NBA-körfuboltanum að ástæðulausu. Það sem kóngurinn vill mun kóngurinn fá. Gott dæmi um það er umgjörðin í kringum fyrsta leik Cleveland Cavaliers liðsins sem NBA-meistari.

NBA-deildin hefst í kvöld með leik Cleveland Cavaliers og New York Knicks en fyrir leikinn verður sérstök verðlaunahátíð í Quicken Loans höllinni þar sem leikmenn, þjálfarar og starfsmenn Cleveland liðsins á síðasta ári fá afhenta meistarahringi sína.

Á sama tíma á hafnarboltavellinum við hliðina mun Cleveland Indians liðið spila fyrsta leikinn í úrslitum hafnarbolta deildarinnar. Þetta er í fyrsta sinn frá 1997 sem hafnarboltalið Cleveland spilar til úrslita og það er einmitt á sama kvöldi og körfuboltalið borgarinnar tekur við hringunum sínum.

LeBron James var spurður um það í síðustu viku hvort það væri eitthvað sem honum dytti í hug til að gera þetta kvöld enn betra. Svar hans var: „Ég veit það ekki, kannski að hafa ísbíl fyrir utan báðar hallirnar á sama tíma líka. Það yrði rúsínan í pylsuendanum (ísinn á toppi kökunnar),“ svaraði LeBron James.

Blue Bunny ísgerðin stökk til að varð við ósk kóngsins í Cleveland. Ísgerðin mun mæta með ísbíl og bjóða stuðningsmönnum Cleveland-liðanna upp á frían ís fyrir leikina.

Cleveland Cavaliers ætlar líka að byrja sinn leik hálftíma fyrr til að auðvelda stuðningsfólki sínu að fylgjast með báðum leikjum þetta risakvöld í íþróttasögu Cleveland-borgar. Það verður allt að gerast í Cleveland í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×