Viðskipti innlent

Laun hækkuðu um 1,9 prósent

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valgarður
Regluleg laun voru að meðaltali 1,9 prósenti hærri á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en á ársfjórðunginum á undan. Á milli ára hafa laun hækkað um 5,4 prósent að meðaltali. Þá 5,8 prósent á almennum markaði og 4,6 hjá opinberum starfsmönnum.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Laun ríkisstarfsmanna hafa þó hækkað um 5,5 prósent, en laun starfsmanna sveitarfélaga um 3,5 prósent.

Frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs mældist mesta hækkun launa í samgöngum of fjármálaþjónustu, eða um 2,8 prósent. Laun í byggingarstarfsemi hækkuðu um 2,2 prósent, 1,3 prósent í verslun og 0,8 prósent í iðnaði.

Frá síðasta ári hækkuðu laun mest í byggingastarfsemi eða um 7,9 prósent. Minnst hækkuðu laun í iðnaði eða um 4,6 prósent.

Hækkun reglulegra launa á milli ársfjórðunga eftir starfsstéttum hækkaði á bilinu 1,3 til 2,6 prósent. Mest hækkuðu laun tækna og sérmenntaðs fólks en laun iðnaðarmanna minnst.

Á milli ára hækkuðu laun þjónustu- og sölufólks mest eða um 6,5 prósent. Laun iðnaðarmanna hækkuðu minnst eða um 5,3 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×