Innlent

Laun allra starfsmanna Orkuveitunnar hækki jafn mikið og hjá forstjóranum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forstjórar eru ekkert í öðru samfélagi en við hin, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar sem á fimmtíu félagsmenn hjá Orkuveitunni.
Forstjórar eru ekkert í öðru samfélagi en við hin, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar sem á fimmtíu félagsmenn hjá Orkuveitunni. Fréttablaðið/GVA
„Þetta er sérkennilegt á allan máta,“ segir Sigurður Bessason, formaður stéttarfélagsins Eflingar, um launahækkanir Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Fram kom í Fréttablaðinu á laugardag að laun Bjarna hafa hækkað úr 1.340 þúsund krónum frá því hann settist í forstjórastól OR fyrir fjórum árum í 2,4 milljónir í dag.

„Við sömdum fyrir ári og almenn hækkun var 2,8 prósent og hækkun á launatöflum var frá 4,2 prósentum upp í 5,1 prósent. Í krónutölu var það 9.750 krónur á lægstu launum,“ segir Sigurður.

Frá því Bjarni tók við forstjórastarfinu hefur hann sest í stjórn tveggja dótturfélaga Orkuveitunnar og fær fyrir það 400 þúsund krónur aukalega.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar fékk launahækkun með nýjum samningi.Fréttablaðið/GVA
„Það er íhugunarefni að hér áður fyrr féll þetta undir hlutverk forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur að sjá um öll þessi fyrirtæki þannig að ég veit ekki hver eðlismunur hafi orðið á starfi hans sem gerir það að verkum að það var nauðsynlegt að greiða sérstaklega fyrir að það væri búið að setja upp þessi þrjú félög,“ segir Sigurður.

Laun Bjarna forstjóra voru sögð hækkuð í samræmi við niðurstöður starfskjaranefndar OR. „Ég veit ekki hvert þessi starfskjaranefnd hefur sótt sínar viðmiðanir, það er að minnsta kosti ekki í almennar launabreytingar á vinnumarkaði,“ segir Sigurður.

Samningar Eflingar við OR eru að renna út. Sigurður býst við að kröfur gagnvart fyrirtækinu verði settar fram í næsta mánuði. „Auðvitað hafa svona ákvarðanir áhrif á það sem gerist í framhaldinu. Forstjórar eru ekkert í öðru samfélagi en við hin. Og ef fyrirtækin eru svona vel stöndug til þess að greiða svona launatölur þá er eðlilegt að starfsmennirnir krefjist sambærilegra launabreytinga.“

Fréttablaðið hafði eftir Haraldi Flosa Tryggvasyni, formanni stjórnar OR, að Bjarni væri ákaflega hæfur og það skýrði nauðsyn þess að hækka laun hans. Sigurður segir alla í fyrirtækjum mikilvæga til þess að þau séu vel rekin. Líka starfsmenn á gólfinu:

„Það er einfaldlega enginn miskunn á því. Ef forstjórinn er ekki með góða starfsmenn þá er lítill árangur í rekstri fyrirtækisins. Þessi rök ná því ekkert mjög langt en menn hafa nýtt sér þau í alltof langan tíma til að draga fram óraunhæfar hækkanir til forstjóra. Menn eiga að sýna af sér hógværð og huga að því að fyrirtækið er ein eining þar sem allir starfsmenn hafa ákveðnu hlutverki að gegna – að sjálfsögðu forstjórinn eins og aðrir en hann á ekki að skapa óeiningu með svona óhóflegum launabreytingum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×