Innlent

Las það í fréttum að sérsveitin væri í húsi hans

Bjarki Ármannsson skrifar
Nágranni konunnar sem handtekin var af sérsveit lögreglu á Selfossi í dag segist ekki hafa orðið var við það að aðgerðir væru hafnar í fjölbýlishúsi hans fyrr en hann las það á fréttamiðlum.

„Maður sá þetta náttúrulega bara í fréttum á netinu,“ segir Jack Hrafnkell Daníelsson, íbúi við Ástjörn. „Þá voru aðgerðir byrjaðar hérna, eins og kom fram í fréttinni sem birtist í upphafi á Vísi.“

Greint var frá því stuttu eftir hádegi að sérsveitin hefði verið kölluð út vegna konu sem miðaði byssu á átján ára dreng sem var á leið í skólann. Lögregla sat um íbúð konunnar í fjölbýlishúsinu og var hún handtekinn um klukkan eitt.

Við hvað varðst þú var?

„Ég var ekki raunverulega var við neitt fyrr en ég fór bara að kíkja út og þá var lögreglubíll hér fyrir utan og tveir lögreglumenn í sérsveitarbúningi hérna uppi í tröppum,“ segir Jack. „En engin læti eða hamagangur eða neitt, þeir voru bara í biðstöðu.“

Fór ekkert um þig?

„Ja, maður fór svona að velta fyrir sér hvað væri í gangi. En maður hoppaði ekkert upp og snerist í hringi af ótta eða stressi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×