Viðskipti innlent

Lárus og Magnús Arnar á­kærðir sem aðal­menn

Magnús Halldórsson skrifar
Lárus Welding
Lárus Welding

Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fjórum mönnum í Aurum-málinu svokallaða, þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs, Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og fyrrverandi starfsmönnum Glitnis, þeim Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Bjarna Jóhannessyni. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við sex milljarða lánveitingu Glitnis í maí 2008.

Magnús Arnar og Lárus eru ákærðir sem aðalmenn, og Jón Ásgeir og Bjarni sem hlutdeildarmenn í meintum umboðssvikum.

Málið snýst um lán Glitnis til félagsins FS38 upp á sex milljarða króna í maí 2008. Það félag keypti hlut Fons í skartgripafélaginu Aurum Holding, og fjórir milljarðar fóru í að greiða skuldir Fons. Einn milljarður fór svo til Pálmar Haraldssonar, eiganda Fons, og einn milljarður til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Pálmi er ekki meðal ákærðu í málinu, eins og fyrr segir.

Lárus var einnig meðal ákærðu í Vafningsmálinu svokallaða, en aðalmeðferð í því máli lauk á mánudaginn, og verður dómur kveðinn upp í því máli 28. desember næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hámarksrefsing fyrir umboðssvik samkvæmt lögum, ef sakir eru miklar, er sex ára fangelsi en málið verður þingfest í héraði. Þyngsti dómur sem fallið hefur hér á landi í umboðssvikamáli féll í sumar, þegar Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs sparisjóðs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sjóðsins, voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti, í hinu svokallaða Exeter-máli.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×