Innlent

Lars segist hafa tekið dómara hálstaki

Atli Ísleifsson skrifar
Lars sagðist hafa fengið ýmis tilboð eftir EM-ævintýri Íslendinga.
Lars sagðist hafa fengið ýmis tilboð eftir EM-ævintýri Íslendinga. Vísir/Vilhelm
Lars Lagerbäck segist hafa tekið dómara hálstaki á sínum yngri árum sem knattspyrnuþjálfari sem skýri af hverju hann sé svo rólegur á hliðarlínunni.

Lars greindi frá þessu í spjallþættinum Sommarkväll með Rickard Olsson sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Í þættinum greindi Lars einnig frá því að „loftið hafi farið úr“ íslensku leikmönnunum eftir Englandsleikinn, einhverjir leikmenn ekki virt þann tíma sem átti að mæta í kvöldverð og margt fleira.

Tók dómara hálstaki

Þáttastjórnandinn ræddi við Lars um EM-ævintýri íslenska karlalandsliðsins og var hann meðal annars spurður út í ástæður þess að hann væri svona rólegur á hliðarlínunni. „Ef þú vilt fá að heyra sannleikann þá fékk ég reiðikast þegar ég starfaði sem þjálfari á mínum yngri árum – þá var maður aðeins líflegri en nú – og ég tók dómara hálstaki.“

Lars sagði að eftir þetta atvik hafi hann tekið ákvörðun um að haga sér á hliðarlínunni. „Ef þú ætlar að hafa áhrif á það litla sem þú getur haft áhrif á þá finnst mér að maður verði að haga sér.“

Heyra ekki í þér, sjá þig ekki

Hann lagði áherslu á að knattspyrnuþjálfarar sinni 90 prósent af starfi sínu áður en leikurinn byrjar. Dómarar taki lítið tillit til þjálfaranna á hliðarlínunni. „Þeir heyra ekki í þér, sjá þig ekki og eru einfaldlega of uppteknir af eigin frammistöðu.“

Lars segist ekki muna nákvæmlega hvaða ákvörðun umræddur dómari hafi tekið sem varð til þess að hann tók dómarann hálstaki. „Þetta er ansi langt síðan, þegar ég þjálfaði félag í Helsingjalandi.“

Sé litið á þjálfaraferil Lagerbäck má sjá að hann þjálfaði tvö félög í Helsingjalandi á sínum tíma, Arbrå á árunum 1983 til 1985, og Hudiksvall á árunum 1987 til 1989. Eftir það tók hann til starfa hjá sænska knattspyrnusambandinu árið 1990.

Hefur fengið tilboð eftir EM

Lars var einnig spurður út í hvort hann hafi fengið einhver tilboð eftir ótrúlegan árangur sinn og Heimis með íslenska landsliðið. Hann sagði svo vera þó að hann vildi ekki upplýsa nákvæmlega um hvaða störf ræðir af virðingu við þá sem síðar fengu umrædd störf.

„Ég get þó upplýst að tilboðin hafa komið alls staðar að úr heiminum.“

Hann segir að hann hafi heitið sínum nánustu að hann muni ekki taka að sér fullt starf innan knattspyrnunnar aftur, en að hann gæti vel hugsað sér að vera viðriðinn boltann eitthvað áfram á einhvern hátt.

Loftið úr leikmönnunum

Lars sagði einnig frá því að þegar hafi komið að Frakklandsleiknum hafi „loftið svolítið verið farið“ úr íslensku leikmönnunum. Sigurinn á Englendingum í sextán liða úrslitum hafi verið svo gríðarlega stór og mikill þar sem enski boltinn væri svo vinsæll á Íslandi.

Lars sagði einhverja leikmenn hafa verið svo ánægða með sigurinn á Englendingum að dagana eftir leikinn og í aðdraganda Frakklandsleiksins, hafi Lars og Heimir reynt að fá fætur leikmanna aftur niður á jörðina.

Lars segir hópurinn hafi lagt mikla áherslu að haga sér líkt og atvinnumönnum sæmir og að eftir Englandsleikinn hafi einhverjir leikmenn mætt tuttugu mínútum of seint í kvöldverðinn og fleira.

Sjá má myndskeiðið þar sem Lars ræðir hálstakið hér. Sjá má þáttinn í heild sinni hér en þar má í upphafi sjá þáttastjórnandann taka víkingaöskrið með áhorfendum eða „Eldfjallið“ eins og öskrið hefur verið kallað í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×