Fótbolti

Lars ætlar ekki að taka við Noregi eða Skotlandi: „ Ég hef samt lært að loka engum dyrum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck hefur engan áhuga á að taka við norska landsliðinu eða því skoska en sérfræðingar þar í landi hafa kallað eftir þjónustu Svíans sem kom Íslandi í átta liða úrslit EM 2016 ásamt Heimi Hallgrímssyni í sumar.

Lars kvaddi Íslandi með stæl eftir fimm frábær ár þegar strákarnir okkar töpuðu fyrir Frakklandi í átta liða úrslitum EM. Hann settist ekki í helgan stein heldur tók hann við starfi sérstaks ráðgjafa sænska landsliðsins sem hann þjálfaði um árabil og kom fimm sinnum á stórmót.

Sjá einnig:Drillo vill fá Lars til bjargar: „Hann er þjálfarinn sem Noregur þarf á að halda“

Svíinn, sem er orðinn 68 ára gamall, vinnur samhliða landsliðsþjálfaranum Janne Andersson og hefur ýmislegt til málanna að leggja þegar kemur að því að velja sænska landsliðshópinn.

„Það er ekki draumur minn að fara í nýtt starf núna. Ég sagði Íslendingunum að vonandi yrði ég skynsamur og myndi hætta en þegar Janne hringdi fannst mér það spennandi sem hann hafði að segja,“ sagði Lars í beinni útsendingu í morgunsjónvarpi TV4 í Svíþjóð í morgun.

„Ég hef samt lært að loka engum dyrum en það kæmi mér gríðarlega á óvart ef ég myndi stökkva á nýtt fullt starf,“ sagði Lars Lagerbäck.

Viðtalið við Lagerbäck á sænsku má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×