Fótbolti

Lars: Þurfum að gera betur en gegn Kasakstan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck ræðir við strákana á æfingu Íslands.
Lars Lagerbäck ræðir við strákana á æfingu Íslands. vísir/vilhelm
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara karla í fótbolta, segir ekkert annað en sigur koma til greina í síðustu tveimur leikjum strákanna okkar í undankeppni EM 2016.

Ísland mætir Lettlandi á laugardaginn og Tyrkjum ytra á þriðjudaginn, en Ísland á möguleika á að vinna sinn riðil í fyrsta skipti í sögunni.

„Við lítum á leikinn gegn Lettum sem mjög mikilvægan leik sem við ætlum okkur að vinna og þannig undirbúum við liðið,“ sagði Lars við vísi í dag.

Ísland vann Letta tiltölulega auðveldlega, 3-0, í fyrri leik liðanna á síðasta ári, en hafa Lettarnir breyst síðan þá?

„Þeir eru mun betri en síðast. Lettneska liðið breytti hugarfarinu eftir tapið gegn Hollandi. Liðið verst mjög vel, er skipulagt og beitir öflugum skyndisóknum,“ sagði Lars, en hvað vill hann sjá frá íslenska liðinu?

„Það sem við undirstrikum er sóknarþriðjungurinn. Við vorum ekki nógu góðir að sækja gegn Kasakstan. Við stýrðum leiknum vel og ég skil að leikmennirnir vildu halda boltanum því úrslitin skiptu mestu máli.“

„Við þurfum að komast aftur fyrir Lettana og ná góðum fyrirgjöfum. Ef við ætlum að skora þurfum við að gera betur en gegn Kasakstan,“ sagði Lars.

Ísland vill komast upp í þriðja styrkeleikaflokk fyrir dráttinn til riðlakeppni EM sem gæti skipt sköpum þegar á mótið er komið. Hvað þarf að gerast svo þannig fari?

Það fer eftir því hvaða lið komast en við þurfum held ég alltaf að vinna bæði Lettland og Tyrkland. Þessa stundina erum við í fjórða styrkleikaflokki en við eigum möguleika að komast ofar,“ sagði Lars Lagerbäck.


Tengdar fréttir

Jón Daði æfði ekki í dag vegna meiðsla

Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska karlalandsliðsins, er að glíma við meiðsli og það er því ekki öruggt að hann geti spilað með íslenska landsliðinu á móti Lettum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×