Innlent

Lánsamur að vera á lífi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Mannbjörg varð þegar mikill eldur kom upp í smábátnum Brandi VE, skammt austan við Vestmannaeyjar í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á hádegi neyðarskeyti frá Brandi og um svipað leyti barst tilkynning um neyðarblys á sama svæði.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem stödd var skammt frá vettvangi, var þegar send á staðinn ásamt nærliggjandi skipum og björgunarskipinu Þór. Gunnlaugur Erlendsson var einn um borð þegar eldurinn kom upp.

Hver voru þín fyrstu viðbrögð?



„Það fór reykskynjari í gang og ég opnaði hurðina inní stýrishúsið. Það kom bara einhver bomba af eldi og reyk á móti mér svo ég lokaði bara aftur og setti björgunarbátinn út,“ segir Gunnlaugur, en honum virtist eðlilega nokkuð brugðið eftir atvikið.

Brandur er gjörónýtur.Fréttablaðið/Óskar
Eldurinn gaus upp í stýrishúsinu en eldsupptök eru ókunn og Gunnlaugur áttar sig illa á hvað gerðist. Um fjögur hundruð lítrar af eldsneyti voru um borð en ekki kviknaði í því. Gunnlaugi var bjargað um borð í fiskiskipið Frár VE aðeins um ellefu mínútum eftir að neyðarkall barst og flutti það hann í land í Eyjum.

„Mér brá svolítið en þeir voru þarna rétt hjá og voru snöggir að kippa mér um borð.“

Aðgerðir á vettvangi tókust vel og tókst Lóðsinum frá Vestmannaeyjum að slökkva eldinn áður en hann dró Brand til hafnar. Báturinn er þó gjörónýtur.

„Hann er bara ónýtur, það er bara þannig,“ segir Gunnlaugur. Svo þú ert lánsmaður að vera hér? „Já, ég er það náttúrulega.“

Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt má sjá viðtalið við Gunnlaug og myndir af vettvangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×