Körfubolti

Landsliðsmiðherjinn komst ekki í úrvalslið Keflvíkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Lind Þrastardóttir.
Sandra Lind Þrastardóttir. Vísir/Vilhelm
Keflvíkingar voru ekki áberandi í úrslitakeppni körfuboltans í ár eins og oftast áður. Konurnar komust ekki í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögunni og karlarnir unnu bara einn leik og duttu út í átta liða úrslitunum. Keflvíkingar gerðu því upp körfuboltatímabilið sitt áður en bæði lokaúrslit karla og kvenna hófust.

Keflvíkingar verðlaunuðu sitt fólk á lokahófi sínu á föstudagskvöldið eins og kemur fram á heimasíðu Keflvíkinga en þar voru bestu leikmenn og bestu varnarmenn meðal annars valdir hjá báðum meistaraflokkunum.

Líkt og venjan er hjá Keflavík þá velur stjórnin fimm manna úrvalslið Keflavíkur úr báðum meistaraflokkunum sínum. Að þessu sinni voru í liðinu þrír karlar og tvær konur í liði ársins.

Úrvalslið Keflavíkur 2015-2016 skipuðu þau Valur Orri Valsson, Magnús Már Traustason, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Reggie Dupree.  

Valur Orri Valsson var valinn bestur hjá körlunum en Thelma Dís Ágústsdóttir hjá konunum. Bæði eiga þau körfuboltagoðsagnir sem foreldra því Valur Ingimundarson, stigahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla frá upphafi, er faðir Vals og þá er ein besta þriggja stiga skytta allra tíma, Björg Hafsteinsdóttir, er móðir Thelmu.

Öll áttu þessi fimm flott tímabil og eru vel að þessum verðlaunum komin en athygli vekur þó að landsliðsmiðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir komst ekki í þetta úrvalslið hjá Keflavík.

Sandra Lind Þrastardóttir er eini A-landsliðsmaður Keflvíkinga þessa stundina en hún spilaði mikilvægt hlutverk hjá kvennalandsliðinu í leikjum liðsins í Evrópukeppninni í vetur.

Sandra Lind var með 9,2 stig og 9,6 fráköst að meðaltali í Domino´s deildinni. Thelma Dís var með 8,0 stig og 6,3 fráköst í leik og Emelía Ósk skoraði 6,5 stig og tók 3,2 fráköst að meðaltali.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir eru báðar kornungir leikmenn sem spiluðu mjög vel í vetur ekki síst eftir að Sverrir Þór Sverrisson tók við þjálfun liðsins.

Thelma Dís var sem dæmi með 11,4 stig og 8,9 fráköst að meðaltali í síðustu sjö leikjum Keflavíkur og Emelía Ósk skoraði 11,7 stig í leik í síðustu sex leikjum Keflavíkur.

Sandra Lind skilaði 5,5 stigum og 3,8 fráköstum á 20,0 mínútum að meðaltali í leik með íslenska kvennalandsliðinu í Evrópuleikjum liðsins í vetur en hún hækkaði stigaskor sitt með hverjum leik.


Tengdar fréttir

Helena og Ingi Þór best

Helena Sverrisdóttir, leikmaður Hauka, og Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, fengu í dag viðurkenningu fyrir að vera besti leikmaður og besti þjálfari seinni hluta Dominos-deildar kvenna.

Stelpurnar fá að glíma við ungverska risann í kvöld

Hin nítján ára gamla Sandra Lind Þrastardóttir hefur fengið stórt hlutverk þrátt fyrir að vera yngsti leikmaður landsliðsins. Verkefni kvöldsins er þó af stærri gerðinni og það í bókstaflegri merkingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×