Handbolti

Landsliðsfyrirliðinn markahæstur í ellefta sigri Ljónanna í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rhein-Neckar Löwen vann sinn ellefta sigur í röð í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta er liðið bar sigurorð af Balingen-Weilstetten á útivelli, 28-33, í kvöld.

Löwen er í 2. sæti deildarinnar með 28 stig, jafn mörg og topplið Flensburg sem vann Bergischer í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í liði Löwen í kvöld með átta mörk. Fjögur þeirra komu úr vítum. Alexander Petersson komst ekki á blað.

Rúnar Sigtryggson er þjálfari Balingen sem er í 14. sæti deildarinnar með níu stig, þremur stigum frá fallsæti.

Vandræði Íslendingaliðsins Bergischer aukast enn en það tapaði fyrir Flensburg í kvöld, 29-32.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer sem er rótfast við botninn með aðeins fimm stig. Björgvin Páll Gústavsson varði tvö skot í marki Bergischer (22,2%).

Hannover-Burgdorf þurfti að sjá á eftir báðum stigunum til Melsungen er liðin mættust á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Lokatölur 30-31, Melsungen í vil. Marino Maric skoraði sigurmark Melsungen á lokasekúndunni.

Rúnar Kárason var ekki á meðal markaskorara hjá Hannover sem hefur tapað tveimur leikjum í röð. Liðið er í 6. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×