Fótbolti

Landsliðið græddi á klúbbsreglunni í Cardiff City

Óskar Ófeigur Jónsson í Amsterdam skrifar
Aron Einar fagnar á Laugardalsvelli eftir sigurinn á Tékkum.
Aron Einar fagnar á Laugardalsvelli eftir sigurinn á Tékkum. Vísir/Ernir
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, segist vera mjög bjartsýnn að geta spilað á móti Hollandi á fimmtudaginn kemur. Aron Einar æfði með íslenska liðinu í dag og góð hvíld frá helginni kom þar sterk inn.

Aron Einar hefur verið að glíma við meiðsli og hann tók ekkert þátt í leik Cardiff City á móti Nottingham Forest í ensku b-deildinni um síðustu helgi.

„Ég meiddist fyrir leik á þriðjudeginum og svo vorum við í fríi á miðvikudeginum," sagði Aron Einar en Cardiff City tapaði þá fyrir Milton Keynes Dons á útivelli í enska deildabikarnum.

Aron Einar missti af þeim leik og hefur aðeins spilað í sextán mínútur í fyrstu fimm leikjum Cardiff í ensku b-deildinni í vetur.

„Ég æfði síðan ekki á fimmtudeginum og föstudeginum og þá var ég ekki að fara að ferðast til Nottingham. Ef að ég æfi ekki daginn fyrir leik þá er bara sú regla í klúbbnum að þá ferðast þú ekki í leik og ert ekkert að fara að spila," segir Aron Einar og hann viðurkennir alveg að íslenska landsliðið hafi grætt á þessari þróun mála.

„Auðvitað græðir landsliðið á þessu. Ég hvíldi vel yfir helgina og lappirnar fóru upp í loft. Ég er búinn að ná mér vel og er búinn að reyna að vera að hugsa um líkamann fyrir þetta verkefni," sagði Aron Einar.

Aron Einar Gunnarsson er gríðarlega mikilvægur á miðju íslenska liðsins og hefur varið íslensku varnarlínuna af krafti og öryggi í þessari undankeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×