Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 14,9 milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Steinþór Pálsson segir virðisaukningu eigna hafa staðið undir óvenjulega stórum hluta tekna á árinu,
Steinþór Pálsson segir virðisaukningu eigna hafa staðið undir óvenjulega stórum hluta tekna á árinu, Vísir/Daníel
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins nam 14,9 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 15,5 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu bankans um uppgjörið er bent á að 4,9 milljarða króna hagnaður vegna sölu á 9,9 prósenta hlut í Framtakssjóði Íslands (FSÍ), öllum hlut bankans í IEI slhf. og vegna gangvirðisbreytinga á þeim hlut í FSÍ sem bankinn hélt eftir, var færður til bókar á öðrum ársfjórðungi.

Eigið fé Landsbankans, eignir mínus skuldir, nam í lok júní 236 milljörðum króna og hefur lækkað um 2,3 prósent frá áramótum. Vaxtatekjur lækka um tíu prósent frá fyrra ári en hreinar þjónustutekjur standa í stað

„Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða Landsbankans er með ágætum. Virðisaukning eigna hefur staðið undir óvenjulega stórum hluta tekna á árinu, en á móti er vaxtamunur töluvert lægri en á fyrra ári. Samanlagt hefur frá stofnun bankans orðið virðisrýrnun á útlánum hans,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningunni.

Þar er einnig bent á að Seðlabankinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa ekki enn veitt undanþágur frá gjaldeyrislögum vegna samnings um lengingu á greiðslum skuldabréfs milli bankans og slitastjórnar gamla Landsbankans (LBI hf.). Samningurinn var undirritaður í byrjun maí. Landsbankinn segir brýnt að niðurstaða fáist í það mál því lengingin dragi verulega úr áhættu varðandi greiðslujöfnuð þjóðarbúsins og geti verið stórt skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×