Erlent

Landnemar óskast - allir geta sótt um

Hollensku samtökin Mars One bjóða nú áhugasömum jarðarbúum varanlega dvöl á Mars. Stefnt er að því að fyrstu landnemarnir stígi fæti á rauðu plánetuna árið 2023.

Hver sem er getur sótt um að taka þátt í verkefninu. Mars One birti í dag kynningarmyndband fyrir verkefnið sem og helstu kröfur sínar til væntanlegra umsækjenda. Ákjósanlegir eiginleikar eru áræðni, forvitni og sköpunargleði. Þá er aldurstakmark — enginn undir 18 ára aldri mun taka þátt í verkefninu.

Valið mun fara fram á þessu ári. Mars One leggur mikla áherslu á gagnsæi og því mun heimsbyggðin gjörvöll geta fylgst með ferlinu. Þeir sem verða svo fyrir valinu verður skipt niður í sex hópa og hefja umsvifalaust þjálfun.

En aðeins einn hópur mun á endanum leggja í ferðalagið mikla. Sá hópur verður valinn með lýðræðislegum kosningum. „Jarðarbúar munu á endanum kjósa þann hóp sem fer í forsvari fyrir mannkyn til Mars," segir í tilkynningu frá Mars One.

Það skal þó tekið fram að farmiðinn til Mars gildir aðeins aðra leiðina. Enginn mun snúa aftur.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsvæði Mars One. Þá er hægt að nálgast kynningarmyndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×