Enski boltinn

Lambert á förum frá Liverpool | „Eins og taka nýjan bíl úr bílskúrnum“

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rickie Lambert í leik gegn Blackburn í vor.
Rickie Lambert í leik gegn Blackburn í vor. Vísir/getty
Tony Pulis, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, staðfesti í dag að félagið væri í viðræðum við Liverpool um enska framherjann Rickie Lambert. Er Pulis vongóður um að félögin komist að samkomulagi á næstu dögum.

Hinn 33 árs gamli Lambert sem hefur leikið 11 leiki fyrir Englands hönd gekk til liðs við Liverpool síðasta sumar eftir fimm tímabil í herbúðum Southampton.

Sneri hann þá aftur heim eftir að hafa ekki fengið samning hjá félaginu sem unglingur en honum tókst ekki að sanna sig í þetta skiptið. Var hann aðeins tólf sinnum í byrjunarliði Liverpool og skoraði hann þrjú mörk í öllum keppnum en yfirleitt kom hann inn af bekknum.

Eftir að Liverpool gekk frá kaupunum á Christian Benteke og Danny Ings var talið nokkuð víst að Lambert væri á förum frá félaginu og hefur Pulis staðfest að Liverpool sé tilbúið að samþykkja tilboð í enska framherjann.

„Hann er falur fyrir rétt verð, Liverpool hefur gefið það út og við erum áhugasamir. Við þurfum fleiri menn sem geta skorað mörk og hann hefur alltaf gert það. Mér skilst á fólkinu hjá Liverpool að hann sé í frábæru standi og að hann geti ekki beðið eftir að spila fótbolta á ný,“ sagði Pulis sem bauð upp á skrautlega myndlíkingu.

„Hann lék svo lítið á síðasta tímabili að þetta er eiginlega bara eins og að taka nýjann bíl úr bílskúrnum ef okkur tekst að klófesta hann. Maður setur smá bensín á hann og hann fer á fullt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×