Erlent

Lætur kjósa um ákvarðanir ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Viktor Orban hélt blaðamannafund í gær þar sem hann kynnti fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Viktor Orban hélt blaðamannafund í gær þar sem hann kynnti fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu. vísir/EPA
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur tilkynnt að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um flóttamannakvóta Evrópusambandsins.

Orban segir Evrópusambandið hafa misnotað völd sín með því að þröngva aðildarríkjunum til að taka við ákveðnum fjölda flóttafólks.

Evrópusambandið samþykkti á síðasta ári að deila flóttafólki, sem komið hefur til Evrópusambandsins, niður á aðildarríkin eftir ákveðnu kvótakerfi, þar sem tekið er tillit til fólksfjölda, efnahags og annarra þátta í hverju aðildarríki fyrir sig.

Reyndar eru gerðar ákaflega litlar kröfur til Ungverjalands í þessum reglum Evrópusambandsins, því tilgangurinn var að létta álaginu af Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi með því að láta önnur aðildarlönd en þessi þrjú taka við þeim flóttamönnum, sem þangað hafa flykkst.

Á atkvæðaseðlinum í Ungverjalandi verður þessi spurning: „Vilt þú að Evrópusambandið ákveði með bindandi hætti innflutning til Ungverjalands á fólki, sem ekki er ungverskir ríkisborgarar, jafnvel án samþykkis þingsins?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×