Skoðun

Kyrking og eyðing í Mývatnssveit

Ómar Þ. Ragnarsson skrifar
SOS, þetta er neyðarkall. Það stendur yfir kyrking einstæðs og heimsfrægs lífríkis Mývatns og hún er komin vel á veg. Og það er stórfelld virkjanasókn með tilheyrandi umhverfis- og náttúruspjöllum austan og norðan vatnsins á teikniborðunum.

Kyrking er oft hljóðlát. Þessi kyrking hefur líka verið hljóðlát en markviss í áratugi. Aðra niðurstöðu er erfitt að draga af skelfilegri hnignun einstæðs lífríkis vatnsins, þótt þetta líflát hafi fengið að viðgangast vegna þess að kröfunni um að náttúran sé látin njóta vafans hefur í bráðum hálfa öld verið snúið við.

Sótt hefur verið að vatninu og nágrenni þess úr þremur áttum. Fyrst með Kísiliðjunni og séð fyrir framgangi hennar með því að gera það ævinlega að stórfrétt dagsins, þegar minnstu merki hefur mátt sjá um að starfsemi hennar gæti lagst niður, hrópað úlfur! úlfur! – mannlíf og byggð í Mývatnssveit í hættu! Síðan var Kísiliðjan lögð niður af markaðsástæðum, úlfurinn kom aldrei og það þótti ekki nein frétt. En í stað Kísiliðjunnar komu aðfarir að þessari heimsperlu úr tveimur áttum.

Ferðamannasprenging og virkjanaæði. Annars vegar margfaldur ferðamannastraumur og umsvif við vatnið án þess að séð verði að neitt hafi verið gert til að verja lífríki þess. Hver hefur bent á annan. Allir uppteknir við að græða án þess að neinu sé kostað til varnaraðgerða gegn umhverfisáhrifum. Hins vegar ekki minni aðför að lífríki og einstæðri jarðfræðilegri náttúru Mývatnssveitar í formi áforma um 90 megavatta jarðvarmaorkuvers rétt austan við austurbakka vatnsins og stórfellda stækkun Kröfluvirkjunar með sókn virkjana inn á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið. Það er svæði sem á engan sinn líka á jörðinni, heldur ekki hér á landi.

Mat á umhverfisáhrifum þessara virkjana, sem búið er að gera fyrir Landsvirkjun, er hræðilegra en tárum taki vegna þess hvernig að verki er staðið. Já, þetta er Ísland í dag: „Fólk dreymir um fé og frama / í ferlegu umhverfisdrama / með eyðingu og aðför / við alvaldsins fótskör / og öllum er andskotans sama.“ SOS – þetta er neyðarkall. Svipað neyðarkall var sent í grein í Fréttablaðinu fyrir fjórum árum. Heyrir enginn? Hlustar enginn? Á þetta að vera svona áfram?

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 4. maí.




Skoðun

Sjá meira


×