Erlent

Kýldi kengúru til að bjarga hundinum

Samúel Karl Ólason skrifar
Greig Tonkins býr sig undir að kýla kengúruna.
Greig Tonkins býr sig undir að kýla kengúruna.
Myndband af áströlskum manni kýla kengúru hefur farið eins og eldur um sinu á síðustu dögum. Maðurinn kýldi kengúruna þegar hann kom hundi sínum til bjargar, en hún hélt hundinum í hálstaki. Myndbandið var fyrst birt á Facebook og alfarið án samhengis og uppruna, en frekari upplýsingar hafa verið að koma í ljós.

Atvikið gerðist í veiðiferð sem var skipulögð fyrir ungan mann með krabbamein, en hann er nú látinn. Maðurinn hét Kailem og vildi hann skjóta villisvín áður en hann yrði of veikur til að geta það.

Mathew Amor, sem skipulagði ferðina, sagði News.com.au söguna á bakvið myndbandið.

Hann segir að farið hafi verið í veiðiferðina í júní. Einn af ferðafélögunum tók stóran hluta ferðarinnar upp og gerði DVD-diska fyrir alla úr ferðinni.

Þeir voru á ferð um land í eigum Amor með nokkra sérþjálfaða veiðihunda með sér. Hundarnir hlupu með bílunum og vonast var til þess að þeir myndu finna lykt af villisvíni. Það heppnaðist og hundarnir hlupu frá veginum og eltu lyktina.

„Þeir hlupu fram hjá 20 kengúrum, en þeir eru þjálfaðir til að snerta þær ekki. Þessi stóra kengúra náði taki á hundi vinar míns. Hún greip hann bara,“ segir Amor.

Einungis brugðið

Eigandi hundsins, Greig Tonkins, hljóp því að kengúrunni sem sleppti hundinum þegar hann nálgaðist. Amor segir að Tonkins hafi staðið kyrr á meðan hann fullvissaði sig um að hundarnir tveir væru komnir í skjól. Þá kýldi hann kengúruna og gekk á brott.

Hundinn sakaði ekki og Amor að kengúrunni hafi einungis brugðið. Hún hafi ekki fengið þungt högg.

Kengúrur eru mjög kraftmikil dýr. Nú í október stökk kengúra inn í bakgarð húss í Melborne og drap fjölskylduhund og slasaði karlmann sem reyndi að bjarga hundinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×