Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Herdís þakin örum eftir áralanga sjálfsskaðafíkn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
mynd/herdís
„Ég veit að það eru svo margir að fikta við þetta sem eru ekki komnir eins djúpt og ég og ég vil hafa þetta sem forvörn fyrir stelpur sem líður illa. Þetta er ekki lausnin. Lausnin er alltaf að tala um tilfinningarnar.“

Þetta segir Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir sem í gærkvöldi setti inn færslu á Facebook þar sem hún lýsti sjálfsskaðandi hegðun sem hófst að hennar sögn með „einni lítilli rispu þegar ég var 13 ára gömul.“

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir
Hún segir að um það leyti hafi hún greinst með þunglyndi og nú séu handleggir hennar og fótleggir þaktir af misdjúpum örum – „af öllum gerðum. Sum eru saumuð og sum eru það ekki, sum eru hvít og önnur eru rauð,“ lýsir Herdís. 

Hún segir að í upphafi hafi hún einungis verið að prófa að valda sér skaða. Hún hafi „séð þetta einhvers staðar“ og langað til að prófa „hvað sem er til að láta innri sársaukann þagna,“ eins og hún orðar það. „Svo ég prófaði einu sinni enn. Svo bara tvisvar í viðbót. Og eitt hérna og eitt þarna. Þangað til að þetta var orðið að óstjórnlegum vana sem ég greip í alltaf þegar mér leið illa.“ 

Hún segist ennþá vera að reyna að hætta að valda sér skaða og að í dag sé hún „alveg röndótt,“ eins og myndirnar hér að ofan bera með sér.

Rætt var nánar við Herdísi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og má sjá fréttina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×