Innlent

Kvenfangar segja fyrstu vikurnar á Hólmsheiði hafa verið erfiðar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Kvenfangar í fangelsinu á Hólmsheiði segja fyrstu vikurnar í nýja fangelsinu þar hafa verið erfiðar. Þær séu oft eirðarlausar og vanti eitthvað að gera. Hátt í átta hundruð manns hafa skráð sig í Fangahjálpina, sem er hópur fyrir þá sem vilja veita föngum aðstoð.

Aðstæður kvenfanga á Íslandi hafa verið mikið í umræðunni uppá síðkastið en í fangelsinu á Hólmsheiði afplána nú sex konur. Fangelsið var nýlega tekið í notkun en þar er pláss fyrir 56 fanga.

Nýlega var Facebook-síðan Fangahjálpin stofnuð af stjórnarmanni Afstöðu, félags fanga, vegna áhyggja af því að fangar á Hólmsheiði hefðu lítið að gera og væru þar í algjöru reiðuleysi. Í dag er meðlimir á síðunni hátt í 800 og hafa fjölmargir boðið fram sína aðstoð meðal annars með gjöfum, námskeiðahaldi og ýmsu öðru sem getur orðið föngum til betrunar.

Andrúmsloftið annað en á Akureyri

Mirjam Foekje van Twuijver er ein þeirra sem afplánar nú á Hólmsheiði. Hún segir að það hafi verið erfitt fyrir konurnar að flytja á Hólmsheiðina. Andrúmsloftið sé annað en í fangelsinu á Akureyri. Mirjam segir að það sé ekki nógu mikið að gera á daginn og að konurnar upplifi oft mikið eirðarleysi. Hún útskýrir að þann tíma sem hún hafi verið í fangelsi sjái hún sömu konur koma inn aftur og aftur.

Mirjam segir að það sé mun erfiðara fyrir konur en karla að fá að fara í opin fangelsi. Það sé því lítil hvatning fyrir konurnar að standa sig vel.

Konurnar sem fréttamaður ræddi við á Hólmsheiði eru sammála Mirjam um að það sé ýmislegt sem þurfi að bæta. Allar eru þær sammála um að þó það séu störf í boði, þyrftu þau að vera fjölbreyttari og meira krefjandi.

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins, segist ekki geta tekið undir það að fangarnir séu í reiðuleysi. Reiðuleysi snúist ekki endilega alltaf um það hvort boðið sé uppá eitthvað heldur hvort fólk vilji taka þátt í því. Til að mynda hafi eins ein kona mætt í jóga-tíma sem var í boði í dag.

Hægt er að sjá viðtal við Mirjam og Guðmund í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×