Enski boltinn

Kveður sem kóngur í öðru landi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thierry Henry er markahæsti leikmaðurinn í sögu Arsenal.
Thierry Henry er markahæsti leikmaðurinn í sögu Arsenal. Vísir/Getty
Thierry Henry, einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta frá upphafi, lagði skóna á hilluna sem leikmaður New York Red Bulls í Bandaríkjunum í vikunni. Þar með batt hann enda á magnaðan feril sem teygir sig yfir fimm lönd á 20 ára tímabili. Hann vann marga stóra titla á ferlinum og skoraði ógrynni marka.

Hann er elskaður og dáður á Englandi, sérstaklega hjá stuðningsmönnum Arsenal. Hann býr í Lundúnum og hefur nú nýjan feril sem sjónvarpsmaður hjá Sky Sports þar í borg. Hann er í raun meiri Englendingur en Frakki. Hann hefur aldrei verið vinsæll í sínu heimalandi og ekki notið þeirrar virðingar sem hann á skilið.

Byrjaði hjá Wenger

Henry fæddist og ólst upp í úthverfi Parísarborgar þar sem hann hóf knattspyrnuferilinn ungur að aldri. Fréttir fóru að berast af liprum strák sem gat fíflað menn upp úr skónum og skorað að vild þegar hann var barnungur. Þegar hann var þrettán ára gamall var útsendari frá Monaco sendur til að fylgjast með honum. Það var ekki að spyrja að því, hann var lokkaður yfir um leið.

Þjálfari Monaco á þessum tíma var Arsene Wenger, og samstarf þeirra tveggja var rétt að byrja. Henry braut sér leið inn í byrjunarliðið sautján ára gamall og var hann kjörinn besti ungi leikmaður Frakklands 1996. Ári síðar varð hann Frakklandsmeistari með liðinu og 1997 skoraði hann sjö mörk í Meistaradeildinni á leið Monaco í undanúrslitin. Það var franskt met á þeim tíma.

Stóru liðin fóru að fylgjast betur með Henry og var hann á endanum seldur til eins þess stærsta á þessum tíma. Juventus var lið sem enginn sagði nei við á tíunda áratugnum og keypti „gamla konan“ Henry fyrir 10,5 milljónir punda árið 1999.

Aftur til Wengers

Einu alvöru erfiðleikar Henrys á ferlinum voru hjá Juventus. Hann fékk ekki að spila sem framherji því á undan honum voru menn á borð við Davor Suker og Alessandro Del Piero. Hann var geymdur á kantinum þar sem hann skilaði ekki miklu og entist hann ekki nema hálft ár hjá Juventus.

Þarna hefði ferill margra geta tekið væna dýfu niður á við, en Henry átti góðan að. Arsene Wenger var orðinn þjálfari Arsenal og búinn að vinna Englandsmeistaratitilinn með liðið. Hann vissi hvað í Henry bjó og bjargaði honum frá Ítalíu. Þó allir muni núna eftir Henry sem stórkostlegum leikmanni hjá Arsenal byrjaði hann ekki að raða inn mörkum strax.

„Þegar ég fékk hann frá Juventus var hugmyndin að láta hann spila frammi með Anelka, en Anelka fór til Real Madrid og þar með dó það. Thierry komst ekki í byrjunarliðið strax því það voru öflugir framherjar á undan honum,“ sagði Arsene Wenger þegar hann rifjaði upp árin með Henry hjá Arsenal fyrr í vikunni.

Hélt hann gæti ekki skorað

Henry skoraði 28 mörk fyrir Monaco og þrjú fyrir Juventus. En þegar hann kom til Arsenal vissi hann ekki hvort hann gæti skorað mörk reglulega.

„Hann kom til mín fyrir leik þegar ég lét hann spila frammi og taldi sig ekki geta skorað. Það má segja að hann hafi blekkt sjálfan sig og alla um leið miðað við það sem svo gerðist,“ sagði Wenger, en Henry skoraði í heildina 226 mörk fyrir Skytturnar.

Hann vann Englandsmeistaratitilinn, enska bikarmeistaratitilinn og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Arsenal. Hann varð fjórum sinnum markakóngur úrvalsdeildarinnar og mölbraut ógrynni meta. Stytta var reist af honum fyrir utan Emirates-völlinn sem segir allt sem segja þarf um feril hans í úrvalsdeildinni.

Hjá Barcelona vann hann þrennuna, en tímabilið 2008/2009 skiluðu hann, Samuel Eto'o og Lionel Messi 100 mörkum samtals. Eitthvert eitraðasta sóknarþríeyki seinni tíma. Hann lauk svo ferlinum í Bandaríkjunum þar sem hann spilaði við góðan orðstír hjá New York Red Bulls. Fyrir utan að spila mjög vel fyrir liðið fékk hann mikið lof fyrir framkomu sína og vilja til að gera vel fyrir deildina. Hann var draumur bandaríska markaðsmannsins og auðvitað þjálfara liðsins.

Ekki elskaður í Frakklandi

Sagt er að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi og það á svo sannarlega við um Thierry Henry. Hann er afskaplega misskilinn í föðurlandinu og er í raun litið á hann sem Englending þar. Hann hefur eiginlega of gaman af fótbolta og nýtur sín bæði inni á vellinum sem utan hans að tala um fótbolta. Þetta skilja Frakkar ekki.

Hann var óheppinn að vera uppi á sama tíma og Zinedine Zidane sem var algjör kóngur í franska landsliðinu. Og þegar Zidane hætti og komið var að Henry að bera fyrirliðabandið breyttust viðhorf Frakka í hans garð lítið.

Það hjálpaði auðvitað ekki til að hann sat inni í rútu og gerði ekkert þegar Frakkar fóru í verkfall á HM 2010. Fyrirliðinn sem hefði átt að hjálpa til við að leysa málin hreyfðist ekki úr sæti sínu. Svo var það höndin á móti Írlandi í EM-umspilinu 2011. Meira að segja Frökkum, sem nutu góðs af svindli Henrys, var misboðið. „Ég dæmi ekki leikinn,“ sagði Henry við blaðamenn eftir leikinn.

Henry verður aldrei borinn saman við Zidane eða Platini þótt hann eigi allt hrós skilið. Þannig verður það bara í Frakklandi. Franska íþróttablaðið L‘Equipe birti þó stóra mynd af honum af forsíðu þegar hann hætti með fyrirsögninni: „Kóngur kveður“. Kóngur er að kveðja. Kóngurinn á Englandi sem samlandar hans telja vart vera prins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×