Innlent

Kveðst einfaldlega ekki hafa verið spurður

fanney birna jónsdóttir skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson Fréttablaðið/GVA
Ólafur Arinbjörn Sigurðsson lögmaður segist kannast við að hafa rætt við Bjarnfreð Ólafsson lögmann um mögulegar útfærslur á Al Thani-viðskiptunum.

„Já, já, ég geri það alveg. Ég hef bara ekkert verið spurður að því áður,“ segir Ólafur Arinbjörn. Hann tekur þó fram að hann hafi augljóslega ekki verið aðili að þessum símtölum. „En ef Bjarnfreður hefur sagt að hann hafi talað við mig þá er það væntanlega rétt.“

Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar sem nú afplánar fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm vegna málsins, ritaði grein í Fréttablaðið þar sem hún sagði niðurstöðu Hæstaréttar byggða á misskilningi. Í símtölunum hafi verið rætt um „Óla“ nokkurn og Hæstiréttur ályktað að um væri að ræða eiginmann hennar.

Bjarnfreður Ólafsson, sem er sá sem nefndi „Óla“ í þessum símtölum, sagði í Fréttablaðinu í gær að hann hefði verið að tala um Ólaf Arinbjörn en ekki Ólaf Ólafsson.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að ef um villu sé að ræða geti það orðið forsenda endurupptöku málsins.

„Þetta er mjög alvarlegt mál, þegar svo stór þáttur í forsendum Hæstaréttar reynist vera rangur eftir því sem vitnið segir sjálft. Þess vegna lítur þetta þannig út að ef þarna er þessi misskilningur á ferðinni, að fullt efni sé til að endurupptaka málið,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×