Innlent

Kurlinu skipt út á Hvolsvelli fyrir fimm milljónir króna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kostnaður við verkið er um fimm milljónir króna.
Kostnaður við verkið er um fimm milljónir króna. Vísir/Magnús Hlynur
Unnið er að því um þessar mundir að skipta út svarta gúmmíkurlinu á sparkvellinum á Hvolsvelli. Sveitastjórnarmenn segja að börnin eigi að njóta vafans en margir hafa áhyggjur af heilsuspillandi áhrifum dekkjakurls á leikvöllum.

„Nú erum við með nýtt hágæða gras sem inniheldur ekkert gúmmíkurl,“ segir Ólafur Örn Oddsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Rangárþings eystra. „Krakkarnir geta leikið sér á vellinum án þess að foreldrarnir séu að velta fyrir sér skaðsemi leikvallarins auk þess sem nú ætti ekkert gúmmí kurl að berast inn í húsin með krökkunum.“

Á sveitarstjórnarfundi í september 2015 var ákveðið að fara í framkvæmdir við sparkvöllinn við Hvolsskóla með það að markmiði að losa hann við hið „alræmda“ svarta SBR gúmmíkurl sem hefur mikið verið í umræðunni í vetur.

„Svarta gúmmí kurlið er talið vera heilsuspillandi og jafnvel krabbameinsvaldandi. Börnin njóta vafans og við ákváðum að skipta um gervigras um leið og grunnskólanum lauk nú í vor og frost fór úr jörðu,“ segir Ólafur Örn. „Við völdum gervigras sem er hvorki með sandi né gúmmíkurli frá fyrirtækinu Altis í Hafnarfirði.“

Kostnaður við verkið er um fimm milljónir króna. Ólafur Örn segir það ekki mikinn kostnað, sé horft til þess að krakkarnir leiki sér nú á umhverfisvænum og öruggum velli.

Vísir/Magnús Hlynur
Vísir/Magnús Hlynur
Vísir/Magnús Hlynur

Tengdar fréttir

Ung knatt­spyrnu­kona rekur öndunar­færa­sjúk­dóm til dekkjakurls

Ung knattspyrnukona í Fram telur að bein tengsl séu á milli öndunarfærasjúkdóms sem hún glímir við og þeirri staðreynd að hún hefur spilað undanfarin 5 ár á velli sem þakinn er heilsuspillandi dekkjakurli. Hér áður fyrr var hún alltaf með sterk og heilbrigð lungu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×