Skoðun

Kúabú á krossgötum

Guðjón Þórir Sigfússon skrifar
Hækkun á mjólkurverði

Undanfarnar vikur hefur verið til umræðu hækkun á mjólk til framleiðanda. Hækkun er 1,77% frá 1. ágúst 2015, en síðasta hækkun var í október 2013. Þessi litla hækkun kom mörgum mjólkurframleiðendum verulega á óvart.

Framleiðendur taka á sig hallann

Verðlagsnefnd búvara ákvarðar hækkun á mjólk til framleiðanda. Nefndin miðar við kostnað út frá grundvallarkúabúi sem er með 40 árskýr, en búið er rekið með verulegum halla árið 2014 eða yfir 8 m.kr. Hækkun leiðréttir ekki hallarekstur á grundvallarbúi. Hluta af þessum halla hafa framleiðendur þegar tekið á sig með hagræðingu. Nefndin tekur ekki tillit til lækkunar á beingreiðslum á lítra sem orðið hefur á samningstíma gildandi mjólkursamnings frá 2004.

Beingreiðslur hafa rýrnað

Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu var undirritaður 2004 og gildir út 2016. Samkvæmt honum eru ákvæði um beingreiðslur fyrir mjólkurafurðir til greiðslumarkshafa mjólkur. Ef litið er til þróunar beingreiðslna á lítra mjólkur til framleiðanda frá árinu 2004, hafa þær rýrnað um 20 kr. á lítra fram til 2014 á föstu verðlagi. Þessar upplýsingar koma meðal annars fram í Bændablaðinu frá 9. júlí 2015: „Mjólkursamningurinn frá 2005 hefur elst illa“, er byggir á BS-ritgerð Ástu Steinunnar Eiríksdóttur hagfræðings.

Tekjutap mjólkurframleiðenda verður að bæta

Samkvæmt lögum um verðlagsnefnd er tekið fram að telja eigi beingreiðslur til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til. Ekkert mælir því á móti því að verðlagsnefnd taki tillit til lækkunar á beingreiðslum inn í útreikning sinn á sama hátt, þannig að lækkun þeirra á lítra komi inn til hækkunar á verði til framleiðanda mjólkur. Þetta tekjutap mjólkurframleiðanda verður að bæta upp annars staðar. Ef ekki gegnum auknar niðurgreiðslur á framleiðslukostnaði þá með hækkun á verði til framleiðanda frá verðlagsnefnd. Það stjórnvald sem setur ramma utan um starfsemi verðlagsnefndar verður að tryggja að tekjutap fáist bætt gegnum verðlagsnefnd, önnur leið virðist ekki í boði.

Verður að gera breytingar á verðlagningu mjólkur

Það er ljóst að ekki gengur til lengdar að reka kúabú, eins og grundvallarbú verðlagsnefndar, með verulegu tapi eins og raunin er. Það verður að gera breytingar á verðlagningu mjólkur og starfsskilyrðum framleiðslu. Mjólkurframleiðendur ásamt mjólkurvinnslu hafa sýnt mikla hagræðingu á undanförnum árum. Það eitt og sér nægir ekki. Það verður að tryggja rekstur kúabúa í landinu á farsælan hátt þannig að þessi grein geti þrifist eðlilega. Á meðan verðlagning er í gegnum verðlagsnefnd verður að gera þá kröfu til hennar og þess lagaramma sem henni er settur að mjólkurframleiðsla búi við eðlilegan rekstrargrundvöll. Þá verður einnig að hafa í huga hinn mjög svo óeðlilega háa fjármagnskostnað sem mjólkurframleiðendur búa við eins og aðrar atvinnugreinar í landinu.

Framtíð mjólkurframleiðslunnar

Þjóð verður að geta nýtt eigin gæði til framleiðslu mjólkurvara þannig að rekstur búa gangi upp. Það er ekki ásættanlegt fyrir þjóð að vera háð innflutningi á þessum vörum og greiða fyrir þær með verðmætum gjaldeyri. Einnig koma upp í huga þættir eins og að halda uppi atvinnu, hreinleiki íslenskrar matvöru, sterk ímynd hennar fyrir hreinleika og að hafa dreifða byggð í landinu. Einnig ber að nefna mikilvægi þess að hægt verði að neyta matvöru úr sínu nærumhverfi, sem er að öllu jöfnu besta matvaran, en ekki matvöru sem hefur verið framleidd langt frá neytanda með stóru kolefnisspori vegna flutninga. Ekki er ósennilegt að í náinni framtíð verði mun meiri áhersla lögð á kolefnisspor matvæla, þannig að flutningar matvöru verði skattlagðir til að sporna við mengun vegna kolefnis. Neytendur eru orðnir sem betur fer mun meðvitaðri um þessa þætti. Reynsla erlendis sýnir að ef landbúnaðarframleiðsla eins og mjólk víkur af markaði í framleiðslulandi hækkar verð matvöru aftur. Þetta gerist eftir að innlend matvara hefur orðið undir í samkeppni við innflutning og verð á matvöru verður á endanum hærra en það var fyrir, áður en samkeppni kom til.

Hagsmunir framleiðenda, neytenda og þjóðar fara saman

Það á að vera skýrt að hagsmunir mjólkurframleiðenda, neytenda og þjóðar fari saman. Tryggja verður að neytendur geti hér eftir sem hingað til átt kost á innlendum mjólkurvörum af sem mestum gæðum. Þær verði framleiddar á sem hagkvæmastan hátt þar sem velferð dýra er samkvæmt því sem best gerist og framleiðsla eins sjálfbær með tilliti til innlendra hráefna og landsgæða og kostur er.




Skoðun

Sjá meira


×