Innlent

Krummi í Kvennaskólanum

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Ásdís segir að mikil spenna sé meðal fólks og eru allavega þrjú egg.
Ásdís segir að mikil spenna sé meðal fólks og eru allavega þrjú egg. Vísir/Stefán/Árný M. Eiríksdóttir
Hrafnspar nýtti páskafríið til að byggja sér glæsilegan laup á syllu við Kvennaskólann í Reykjavík. „Það eru allavega þrjú egg í fallega grænum lit,“ segir Ásdís Ingólfsdóttir, kennari í efnafræði og hagfræði við Kvennaskólann. Mikið hefur verið fylgst með hröfnunum og sett hefur verið upp vefmyndavél sem fylgist með þeim.

„Þetta er myndalegur laupur sem þau hafa byggt úr greinum. Einhver úr Þingholtunum hefur eflaust verið að klippa greinar sem hrafnarnir hafa notað. Það er líka vel skreytt með ýmiskonar böndum,“ segir Ásdís. Hún segir krumma víkja varla frá hreiðrinu.

Krummi hefur komið sér vel fyrir á syllunni.Mynd/Árný M. Eiríksdóttir
Laupurinn er staðsettur fyrir utan glugga á vinnuherbergi stærðfræðikennara skólans og snýr að Listasafninu. „Þetta er prýðisgóður staður enda er þetta rúmgóð sylla með þaki yfir svo þau eru í góðu skjóli. Fyrst vorum við alltaf að opna gluggann til að kíkja út en síðan var sett upp vefmyndavél þar sem hægt er að fylgjast með parinu á netinu,“ segir Ásdís. Hún segir að hrafnarnir hafi ekki kippt sér upp við uppsetningu myndavélarinnar. „Þau eru mjög spök og þegar verið var að bora fyrir myndavélinni sat hún á eggjunum og hreyfði sig ekki.“

„Hrafninn er alltaf nálægt manninum og virðist gera sér grein fyrir að þeim er ekki ógnað,“ segir Ásdís. Hún segir að kennarar skólans fylgist mikið með fuglalífinu. „Það er nánast óhjákvæmilegt þar sem tjörnin er svo nálægt. Við höfum tekið eftir að það var mikið af hröfnum í bænum í vetur. Við höfum líka séð fálka gæða sér á dúfu hér á hólmanum í tjörninni. En þetta er mesta nábýli sem við höfum fengið að upplifa,“ segir Ásdís.

Hún segir að mikil spenna sé meðal fólks innan skólans, þó ekki allir hafi verið hrifnir í fyrstu. „Það eru einhverjir hér úr sveit sem ekki er vel við hrafna, enda eiga þeir til að taka unga. En það er gaman að þessu og við munum halda áfram að fylgjast vel með parinu,“ segir Ásdís.

Hér má fylgjast með hrafnsparinu í vefmyndavél, en til þess þarf að hlaða niður Quick Time-forriti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×