Viðskipti innlent

Krónan hefur veikst um rúm 5% á árinu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Gengi krónunnar hefur veikst um rúm fimm prósent frá upphafi árs eftir að hafa styrkst um þrjú prósent að meðaltali árið 2010. Seðlabankinn stendur fyrir öðru gjaldeyrisútboði til að létta á krónueign erlendra aðila í dag.

Gengi bandaríkjadollars stendur nú í tæpum hundrað og átján krónum og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar á þessu ári . Gengi evru hefur hins vegar staðið í stað undanfarnar vikur í kringum 165 krónur en gengið hefur hækkað um rúmar tíu krónur frá ársbyrjun. Samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Arion Banka eru það aðallega hreyfingar á evru og dollar á erlendum mörkuðum sem að valda þessari gengishækkun nú.

Hins vegar stendur ferðamannatímabilið nú sem hæst og kemur það greiningaraðilum á óvart að krónan hafi ekki styrkst undanfarnar vikur þar sem margir erlendir ferðamenn séu að kaupa krónur.

Seðlabankinn býðst í dag til að kaupa krónur í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Þetta er annað gjaldeyrisútboð bankans í sumar og eru útboðin liður í losun gjaldeyrishafta og á að stuðla að því að fjárfestar geti selt krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa.

Bankinn býðst til að kaupa fimmtán milljarða króna gegn greiðslum í evru sem er einungis rúm fjögur prósent af krónueign erlendra aðila en hún er metin á um 400 milljarða króna. Síðari hluti útboðsins fer fram í ágúst en þá mun bankinn bjóðast til að kaupa evrur gegn greiðslu í ríkisverðbréfum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×