Viðskipti innlent

Krónan ekki sterkari síðan 2010

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert á síðustu vikum og hefur ekki verið sterkara síðan á haustmánuðum árið 2010. Gengisstyrkingin hefur haft áhrif á þróun verðlags en útlit er fyrir að verðbólgan verði sú lægsta í tvö ár.

Gengisvísitala krónunnar var 206,5 stig í gær en til samanburðar var hún 231,0 stig um áramótin og 234,8 þegar hún fór hæst í janúar. Síðan hefur krónan styrkst um ríflega 12% en því hærri sem gengisvísitalan er því veikari er krónan.

Einn áhrifaþáttur í styrkingu krónunnar er sá að Seðlabankinn hefur frá því í janúar reglulega selt evrur á gjaldeyrismarkaði til að styðja við gengi krónunnar.

Styrking krónunnar hefur áhrif á verðbólgu í gegnum verð innfluttra vara. Í mars var verðbólga 3,9% sem var lægsta mæling hennar frá maí 2011. Þá spá greiningardeildir bankanna því að verðbólgan í apríl hafi verið 2,9% til 3,2% en Hagstofan birtir mælingu sína ekki fyrr en í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×