Fótbolti

Krísufundur hjá heimsmeisturunum eftir fyrsta leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Neuer mætti 50 mínútum of seint á blaðamannafundinn
Neuer mætti 50 mínútum of seint á blaðamannafundinn vísir/getty
Óvæntustu úrslit fyrstu umferðar HM í Rússlandi var líklega tap Þjóðverja gegn Mexíkó. Heimsmeistararnir áttu engin svör gegn sprækum Mexíkóum sem unnu sanngjarnan 1-0 sigur.

Manuel Neuer er fyrirliði Þjóðverja og hefur þurft að svara fyrir frammistöðu liðsins undanfarna daga.

„Mexíkó skapaði vandræði fyrir okkur og við vorum ekki með svörin við þeim. Þetta á að vekja okkur.“

„Ég hef aldrei upplifað jafn góð samskipti í landsliðinu og eftir tapið gegn Mexíkó. Það boðar gott. Leikmenn vilja taka ábyrgð og við ætlum ekki að lenda í þessu aftur. Við nálgumst næstu leiki með jákvætt hugarfar og trúum því að við getum komist í 16-liða úrslit,“ sagði Neuer.

Neuer mætti 50 mínútum of seint á blaðamannafundinn og baðst afsökunar á því við blaðamenn. Ástæðan fyrir seinkuninni var sú að leikmenn eyddu löngum tíma eftir æfingu liðsins til að fara yfir málin.

„Það var langur liðsfundur og ég biðst afsökunar á að hafa mætt svona seint. Við erum okkar hörðustu gagnrýnendur. Við erum ósáttir við okkur sjálfa og vonsviknir að hafa ekki leikið betur.“

„Við vorum að ræða það hvernig við verndum vörnina okkar og skort á sjálfstrausti í liðinu. Ég get ekki útskýrt það nánar,“ sagði Neuer þegar blaðamenn spurðu um efni liðsfundarins.

Jafnframt tók Neuer skýrt fram að ekkert ósætti væri innan leikmannahópsins en orðrómar þess efnis höfðu verið á sveimi í aðdraganda keppninnar.

Næsti leikur Þjóðverja er næstkomandi laugardag þegar þeir mæta Svíum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×