Körfubolti

Kristófer Acox ekki með á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristófer stóð sig vel með íslenska landslðinu á Smáþjóðaleikunum.
Kristófer stóð sig vel með íslenska landslðinu á Smáþjóðaleikunum. Vísir/Andri Marinó
Kristófer Acox getur ekki gefið kost á sér í íslenska landsliðið fyrir EM í körfubolta sem fer fram í september. Þetta staðfestir hann í samtali við karfan.is.

Kristófer er í háskólanámi í Bandaríkjunum og skóli hans, Furman, gaf honum ekki leyfi til að taka þátt á Evrópumótinu.

„Þetta hittir illa upp á námið og það væri allt of erfitt að missa út 2-3 vikur af námi. Þeir vilja líka halda mér til að koma í veg fyrir að ég dragist aftur úr og nái þar af leiðandi ekki að útskrifast á réttum tíma,“ sagði Kristófer.

Körfuboltalið Furman-háskólans fer til Kostaríku í byrjun næsta mánaðar en vegna þess myndi Kristófer hvort eð er ekki ná að taka þátt í undirbúningi landsliðsins fyrir EM.

„Skólinn vill halda mér hraustum enda hef ég verið óheppinn með meiðsli síðan ég byrjaði hér. Ef eitthvað skyldi koma fyrir með landsliðinu væri virkilega leiðinlegt að halda meiddur inn í tímabilið hjá Furman.“

Hann segir það þó slæmt að geta ekki tekið þátt í ævintýri íslenska landsliðsins en Ísland er nú að spila í lokakeppni EM í fyrsta sinn.

„Mér finnst ég vera að missa af stóru tækifæri og stórum parti af sögu íslensks körfubolta. Það stingur að geta ekki verið partur af þessum kjarna sem fer til Þýskalands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×