Handbolti

Kristján Ara: Íslensku leikmennirnir voru hræddir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Arason og Guðjón Guðmundsson fóru yfir leik Íslands og Danmerkur í HM-kvöldinu hjá Herði Magnússyni í gær en danska landsliðið sendi þá það íslenska heim af heimsmeistaramótinu í Katar.

„Leikmennirnir sem byrjuðu fundu ekki færi, höfðu jafnvel ekki trú á því og voru hræddir. Við höfum byrjað illa í þessu móti og það er líka rannsóknarefni af hverju við byrjum alltaf svona illa. Í hinum leikjunum vorum við oft að fá færi en í þessum leik var ekkert færi," sagði Kristján Arason.

„Niklas Landin byrjar á því að verja og hreinlega lokar markinu. Menn verða hreinlega skíthræddir," sagði Guðjón Guðmundsson en Landin varði sjö fyrstu skot íslenska liðsins í leiknum.

Kristján Arason klippti saman ráðleysislegar sóknar íslenska liðsins í leiknum. „Við vorum hvergi að fá færi af því að við vorum alltaf að spila inn á miðjuna. Það var ekkert teygt á vörninni. Þeir hljóta að hafa verið búnir að tala um þetta," sagði Kristján Arason.

Strákarnir báru síðan saman sóknir íslenska liðsins við hraðar sóknir danska liðsins sem galopnuðu íslensku vörnina.

„Danir eru með frábært lið og líkurnar voru kannski 70-30 okkur í óhag. Við hefðum þurft að leyfa þeim að skjóta meira fyrir utan og reyna frekar að þjappa vörnina fyrir innan punktalínu," sagði Kristján.

„Það er sama hvert er litið á leik íslenska liðsins í þessu móti þá var þetta hreinasta hörmung. Vandamálið er það að þetta er ekki bara að gerast í mótinu. það er búið að vera aðdragandi að þessu öllu og menn verða að horfa á aðdragandann, leikina við Bosníu og Svartfjallaland. Leikmennirnir eru óöruggir og hræddir og maður þekkir ekki suma þessara leikmanna," sagði Guðjón Guðmundsson.

Alla leikgreininguna í HM-kvöldinu má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan en þar má meðal annars hvar Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, lét línumanninn sinn stilla sér upp í leiknum til að hjálpa útispilurum danska liðsins að teygja á íslensku vörninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×