Fótbolti

Kristinn bætti meira en 53 ára gamalt met bróðurs Bjarna Fel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sex mínútur. Kristinn Steindórsson byrjaði vel.
Sex mínútur. Kristinn Steindórsson byrjaði vel. Mynd/KSÍ
Kristinn Steindórsson skoraði ekki bara í sínum fyrsta landsleik á móti Kanada heldur tókst honum, með því að skora strax á sjöttu mínútu leiksins, að verða fljótastur til að skora fyrir íslenska landsliðið í tæplega sjötíu ára sögu þess.

Gunnar Felixson, bróðir Bjarna Fel, hafði átt metið í meira en 53 ár eða síðan Gunnar skoraði tvö mörk á móti áhugamannslandsliði Hollands á Laugardalsvellinum 19. júní 1961. Gunnar skoraði mörkin sín á 10. og 40. mínútu en þau komu bæði eftir sendingar frá Þórólfi Beck sem spilaði líka með honum hjá KR.

Það var hins vegar Kópavogssamvinna í marki Kristins, en hann sem gamall Bliki skoraði þá með skalla eftir frábæran undirbúning Rúriks Gíslasonar, sem var uppalinn hjá HK.

Einum leikmanni hafði tekist að jafna met Gunnars á þessum rúmu 53 árum. Ólafur Danivalsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark tíu mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður á móti Færeyjum á malarvelli í Þórshöfn 16. júní 1976.

29 aðrir landsliðsmenn hafa náð því að skora í sínum fyrsta landsleik en aðeins fjórir þeirra hafa náð því að skora líka í sínum öðrum landsleik. Kristinn fær tækifæri til að bætast í þann hóp í kvöld þegar Ísland og Kanada mætast öðru sinni á Flórída.

Fljótastur til að skora í sínum fyrsta landsleik:

  • 6 mínútur Kristinn Steindórsson á móti Kanada 16. janúar 2015
  • 10 mínútur Gunnar Felixson á móti Hollandi 19. júní 1961
  • 10 mínútur Ólafur Danivalsson á móti Færeyjum 16. júní 1976
  • 16 mínútur Sveinn Teitsson á móti Austurríki 29. júní 1953
  • 16 mínútur Jón R.Jóhannsson á móti Wales 15. ágúst 1966
  • 16 mínútur Guðmundur Benediktsson á móti Sam. arabísku furstad. 30. ágúst 1994
  • 18 mínútur Grétar Rafn Steinsson á móti Brasilíu 8. mars 2002
  • 20 mínútur Tómas Pálsson á móti Englandi 4. ágúst 1971



Fleiri fréttir

Sjá meira


×