Innlent

Kringlugestir spurðir út í tíðindi gærdagsins: „Allt nema Davíð“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Það er enginn vafi á því að framboð Davíðs Oddsonar til forseta Íslands á eftir að hrista vel upp í kosningabaráttunni en hann tilkynnti framboð sitt til forseta Íslands í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær.

„Fyrir örfáum vikum er ekki víst að nokkurn mann hefði órað fyrir að í kosningabaráttunni næsta sumar myndu takast á meðal annarra sitjandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi Seðlabankastjóri og forsætisráðherra. Það er engu að síður staðan. Hver eru viðbrögð fólks við þessum nýjustu tíðindum. Við fórum og könnuðum viðbrögð almennings,“ sagði Þorbjörn Þórðarson fréttamaður Stöðvar 2 áður en hann tók Kringlugesti tali til að spyrja þá um skoðun á framboðinu.

Nokkrir voru jákvæðir í garð framboðsins.

„Mér líst vel á það. Nú veit maður loksins hvað maður á að kjósa,“ sagði karlmaður á sjötugsaldri. Hann hló þegar hann var spurður hvern hann myndi kjósa.

„Hvað ætla ég að kjósa? Hann Davíð auðvitað.“

Flestir þeirra sem teknir voru tali lýstu þó yfir vonbrigðum sínum með tíðindi gærdagsins.

„Mér finnst það bara alveg glatað,“ sagði kona sem sagðist jafnframt ekki geta hugsað sér að kjósa Davíð til forseta. „Hans tími er liðinn.“

Ungur maður sem staddur var í Kringlunni hafði aðeins eitt um framboðið að segja: „Skelfilegt.“ Hann sagðist ekki ætla að kjósa Davíð.

„Allt nema Davíð,“ sagði annar ungur maður sem sagðist aldrei myndu kjósa Davíð Oddson.

„Ég held að þegar þeir komi þrír saman þá verði Guðni sigurvegarinn, svipað og þegar Vigdís fór inn,“ sagði eldri maður.

„Hann getur bara haldið sig hjá Morgunblaðinu,“ sagði maður á þrítugsaldri.

Sjá má skoðanir allra Kringlugesta sem teknir voru tali í myndskeiðinu hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×