Handbolti

Kretzschmar segir velgengni þýska landsliðsins lykilatriði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar.
Dagur Sigurðsson í útsendingu ARD í Þýskalandi með þeim Gerhard Delling og Stefan Kretzschmar. Mynd/Skjáskot
Stefan Kretzschmar segir að handboltinn í Þýskalandi sé á uppleið aftur eftir að hafa verið í lægð í nokkur ár.

Þýskaland varð heimsmeistari árið 2007 en náði sér ekki strik á nýjan leik fyrr en að Dagur Sigurðsson gerði Þýskaland að Evrópumeistara í upphafi ársins. Hann náði svo að fylgja því eftir með því að vinna til bronsverðlauna á ÓL í Ríó.

Kretzschmar er einn þekktasti handboltamaður heims síðustu ára og hefur starfað sem sérfræðingur eftir að hann lagði skóna á hilluna.

„Þetta er lyginni líkast að verða Evrópumeistari og bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikum á sama árinu,“ sagði Kretzschmar við þýska fjölmiðla.

„Það er ekki hægt að verðleggja þýðingu þess fyrir þýskan handbolta,“ sagði hann og bætti við að landsliðið hefði mikla þýðingu fyrir deildina heima og framtíð íþróttarinnar.

„Við erum með góða drengi í landsliðinu og frábæran þjálfara. Ég trúi því að fullt af krökkum séu nú að byrja að spila handbolta á nýjan leik en það hefur verið mikið baráttumál hjá okkur í langan tíma.“

„Þetta skiptir líka miklu máli fyrir deildina og er það jákvætt að geta farið inn í nýtt tímabil með svo mikinn meðvind.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×