Innlent

Krefur þingmenn svara um nútímavæðingu sveita landsins: „Getum ekki beðið í tíu ár eftir rafmagni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svavar Pétur og eiginkona hans Berglind Häsler ásamt börnum sínum á Karlsstöðum.
Svavar Pétur og eiginkona hans Berglind Häsler ásamt börnum sínum á Karlsstöðum. Vísir/GVA
Svavar Pétur Eysteinsson bóndi á Karlsstöðum í Berufirði, sem er ef til vill best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, hefur sent þingmönnum bréf þar sem hann óskar eftir upplýsingum um það hvaða áætlun sé í gangi varðandi þriggja fasa rafmagn í dreifbýli á Austurlandi. Eins og staðan er í dag er nefnilega einfasa rafmagn í dreifbýli fyrir austan og gerir það bændum erfitt fyrir vilji þeir stunda annan búskap en sauðfjárbúskap, eða reyna fyrir sér í einhvers konar iðnaði. 

Svavar og fjölskylda fluttu fyrir tveimur árum úr Reykjavík og austur í Berufjörð. Þau framleiða snakk á bænum og eru með ferðaþjónustu en höfðu ætlað sér að flytja bulsuverksmiðju sína frá höfuðborginni og á Karlsstaði. Það hafi hins vegar ekki verið hægt vegna einfasa rafmagnsins en einfasa rafmagn ber 220 volt en þriggja fasa rafmagn 400 volt.

„Við komum hingað austur með nokkrar hugmyndir í farteskinu um að hefja hér matvælaframleiðslu en rekum okkur fljótlega á það að öll tæki sem við þurfum í slíka framleiðslu eru þriggja fasa tæki. Þetta var eitthvað sem við pældum ekki mikið í áður en við fluttum því þetta er svo sjálfsagður hlutur í Reykjavík, en við fórum sem sagt í það að breyta þeim tækjum sem við vorum komin með en það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir því og óhemju tími sem það tekur,“ segir Svavar Pétur í samtali við Vísi.

Stopult netsamband gerir það erfitt að reka ferðaþjónustu

Rafmagnið í dreifbýli á Austurlandi er byggt upp í kringum sauðfjárbúskap að sögn Svavars enda sé það sá búskapur sem hafi tíðkast hvað lengst í sveitinni. Nú eru hins vegar breyttir tímar og hann segir það gríðarlega mikilvægt að nútímavæða sveitina svo fólk sem vilji reka þar ferðaþjónustu og vera í einhvers konar nýsköpun flýi einfaldlega ekki aftur til borgarinnar eða í aðra sveit þar sem nútímatækni hefur rutt sér til rúms. Það þarf nefnilega ekki aðeins að bæta rafmagnið heldur þarf einnig að bæta fjarskiptasambandið.

Frá framkvæmdum í fjósinu þegar verið var að breyta því í snakkverksmiðju.mynd/svavar pétur
„Hér er hvorki ljósleiðari né ADSL heldur aðeins mjög stopult internetsamband í gegnum 3G-sumarbústaða-router. Við erum að reka ferðaþjónustu hérna og lendum stundum í því að detta alveg úr netsambandi, jafnvel í nokkra daga, og þá segir það sig sjálft að við getum ekki haft samband við viðskiptavini okkar,“ segir Svavar.



„Alveg sama aðgerð og þegar síminn var lagður um sveitir“

Hann segist vita til þess að þessi mál hafi verið rædd í sveitarstjórninni og það sé möguleiki að leggja ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn í leiðinni um sveitina en það sé í raun enginn að spá í því hvenær eigi að ganga í málin.

„Kannski gerist þetta eftir tíu ár eða ekki og ef eitthvað á að gerast eftir tíu ár eða ekki þá er það auðvitað ekki að fara að gerast. Við getum ekki beðið í tíu ár eftir rafmagni, við þurfum að hefjast handa strax á morgun.“

Svavar Pétur segir sveitarfélögin ekki eiga fjármuni til að ráðast í þessar framkvæmdir svo ríkið verður að grípa inn í að hans mati og hefur hann þess vegna sent þingmönnum póst, en hann beinir honum einnig sérstaklega til ráðherra fjarskipta, Ólafar Nordal, og ráðherra atvinnuvega, þeirra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar.

„Þetta er bara alveg sama aðgerð og þegar síminn var lagður um sveitir fyrir áratugum síðan. Það þarf bara að keyra þetta af stað og gera þetta bara um allt land. Þá er þetta bara búið til næstu áratuga og það þarf ekkert að pæla í þessu meir. Þetta er ekki aðgerð sem hægt er að vera að velta fyrir sér hvort eigi að gera vegna þess að það þarf að gera þetta á endanum og það er enginn gróði í því að bíða með þetta í einhver ár.“


Tengdar fréttir

Safna fyrir snakkverksmiðju á Karolina Fund

Bulsugerðarmennirnir Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler ætla að setja á laggirnar snakkverksmiðju á sveitabænum sínum Karlsstöðum á Austfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×