Skoðun

Kraftbirting tónlistarinnar

Arna Kristín Einarsdóttir skrifar
Tónleikar Fílharmóníuhljómsveitar Berlínar í Eldborgarsal Hörpu 22. nóvember síðastliðinn voru án efa einn af hápunktum íslensks tónlistarlífs frá upphafi. Setið var í öllum 1.800 sætum salarins, á bak við hljómsveitina og alveg upp í rjáfur. Upplifun tónleikagesta var slík að húrrahrópunum ætlaði aldrei að linna, bæði fyrir hlé og í lok tónleika.

Það er óhætt að segja að heimsókn Berlínarfílharmóníunnar marki tímamót í menningarsögu Íslendinga. Hljómsveitin er talin ein af bestu hljómsveitum í heimi og á sér langa sögu, en hún var stofnuð árið 1882.

Í 5 stjörnu gagnrýni sinni á tónleika hljómsveitarinnar lét tónlistargagnrýnandi Fréttablaðsins hjá líða að geta ástæðu þess að Berlínarfílharmónían sótti Íslendinga heim. Hér var það Harpa sem lék lykilhlutverk. Berlínarfílharmónían tók að þessu sinni stefnuna á ný tónlistarhús á Norðurlöndum. Hún lék í nýju tónleikahúsi í Helsinki sem vígt var stuttu á eftir Hörpu. Hún lék í nýjum sal Dönsku útvarpshljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn. Undantekningin sem sannaði regluna var tónleikar í Konserthuset i Stokkhólmi, sem svo sannarlega er ekki nýtt hús. Og norrænu yfirferðinni lauk svo með tónleikunum í Hörpu. Það sem fram að Hörpu var algjörlega óhugsandi er orðið að veruleika: Erlendar úrvalshljómsveitir telja sig ekki geta misst af því tækifæri að koma til Íslands til að spila í tónlistarhúsinu sem sögur fara af. Tónlistarhúsi sem byggt var þrátt fyrir efnahagshrun.

60% aukning

Það er óumdeilanlegt að Harpa er tónleikahús sem hefur sett Ísland á kortið. Harpa setur okkur í alþjóðlegt samhengi. Í þetta sinn eru það ekki náttúruhamfarir á borð við Eyjafjallajökul, öskuský eða jarðskjálfta. Ekki heldur búsáhaldabylting og efnahagshörmungar. Í þetta sinn er það hús, raunar glerhjúpur, listaverk, utan um einn magnaðasta tónleikasal í Evrópu.

Auðvitað er hægt að skilja þær raddir sem tala um kostnað, bæði við byggingu og rekstur Hörpu. Og auðvitað eru það algjör forréttindi fyrir íslenskt tónlistarfólk, sem beið í meira en hálfa öld eftir tónleikasal, að fá að vinna við þessar kjöraðstæður. Það hefur hins vegar sýnt sig frá opnun Hörpu að húsið hefur þegar náð að vinna hylli almennings á Íslandi. Í kjölfar fleiri heimsókna hljómsveita mun hróður Hörpu án efa einnig vaxa erlendis.

Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á fyrsta starfsári hljómsveitarinnar í Hörpu varð rúmlega 60% aukning á áskriftum. Með Hörpu hefur orðið sannkölluð bylting í starfsumhverfi hljómsveitarinnar. Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð árið 1950 og fyrstu árin hélt hún tónleika í Þjóðleikhúsinu. Árið 1961 flutti hún í Háskólabíó, þar sem hún lék í bíósal í hálfa öld, eða þar til í apríl 2011 að hún flutti í Hörpu. Ný heimkynni gera það að verkum að hljómsveitin hefur möguleika á að vaxa og dafna. Nú þegar má heyra mun á leik hennar. Hljómburðurinn í Eldborg gerir miklar kröfur til hljóðfæraleikara. Þar heyrist allt. Næstu ár verða hiklaust afar þroskandi fyrir hljómsveitina og óhætt að fullyrða að hún muni launa þjóð sinni ríkulega.

Mannlegur kraftur

Það kallaði á heilmikið hugrekki af stjórnvöldum, sérstaklega af hálfu núverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og þáverandi borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að taka þá umdeildu ákvörðun að ljúka við bygginguna. Það er alþjóðlegt fyrirbæri að stjórnmálamenn gæta sín á að vera ekki of tengdir menningunni af ótta við að þeir verði spyrtir saman við „fámenna menningarelítu". Sá ótti er hins vegar byggður á misskilningi því menning og listir eru ekki fyrir fáa útvalda heldur mannlegur kraftur í allra þágu.

Það er mikil lífsreynsla fyrir samfélag að upplifa hrun eða áfall. Það kemur á heilmiklu tilfinningaróti þar sem ótti, hræðsla, óvissa, reiði og sorg skiptast á. Á slíkum stundum leita manneskjurnar eftir einhverju sem hjálpar. Tónlistin er tungumál tilfinninganna. Allir þekkja það hvernig lítið lag getur breytt líðan okkar, tekið okkur aftur á vit minninga og laðað fram ólíkar tilfinningar.

Þetta upplifðu meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands sterkt þegar hljómsveitin varð að aflýsa þriggja vikna tónleikaferð til Japans haustið 2008 í kjölfar hrunsins. Í stað þess að kasta fyrir róða vinnu við að æfa upp sinfóníur Sibelíusar lék hún þær fyrir opnu húsi í Háskólabíói. Á þá tónleika streymdi fólk sem hafði aldrei áður komið á tónleika hljómsveitarinnar. Það kom með ungbörn í fanginu, hélt utan um hvert annað, sat saman og hlustaði, upplifði og fann til í gegnum tónlistina. Þetta sama reyndu tónlistarmenn í Noregi í kjölfar fjöldamorðanna í Útey í júlí 2011. Þá voru sinfóníuhljómsveitir og tónlistarmenn kallaðir úr sumarfríum, líkt og hjálparsveitir, til að spila fyrir þjóð sína sem var í sárum.

Tilfinningaþroski

Þessi viðbrögð sýna áþreifanlega að tónlistin nærist ekki á sjálfri sér fyrir sjálfa sig. Tónlistin er sprottin af sammannlegri þörf. Því má segja að það lýsi tilfinningaþroska hjá þjóðinni að Harpa varð að veruleika og reis upp úr rjúkandi rústum efnahagshrunsins. Húsið og sú starfsemi sem það hýsir mun halda áfram að lýsa upp íslenskt menningarlíf um langa framtíð og auðga þannig líf okkar með þeim verðmætum sem ekkert fær grandað.




Skoðun

Sjá meira


×