Körfubolti

KR-ingar Kanalausir í kvöld en von er á nýjum manni fyrir næstu umferð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslandsmeistarar KR verða án bandarísks leikmanns þegar þeir mæta Haukum í 15. umferð Domino´s-deildar karla í körfubolta í kvöld. Búið er að segja upp samningi Cedrick Bowen.

„Cedrick fór af landi brott á fimmtudaginn í síðustu viku,“ segir Böðvar Guðjónsson, stjórnarmaður hjá KR, í samtali við Vísi. Hann segir enn fremur að KR ætli að fá sér nýjan Kana og er von á nýjum manni um helgina.

Bowen spilaði þrettán leiki fyrir KR og skoraði í þeim þrettán stig að meðaltali í leik auk þess sem hann tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hann var með 17 í framlag að meðaltali í þessum þrettán leikjum.

Bandaríkjamaðurinn var ekki að heilla mikið með frammistöðu sinni en það hefur ekki komið niður á KR-liðinu sem er búið að vinna alla fjóra leiki sína eftir áramót í deild og bikar. Liðið hefur þó lent í vandræðum í öllum leikjunum.

KR er á toppnum í Domino´s-deild karla með 22 stig,tveimur stigum meira en Tindastóll sem er í öðru sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×