Lífið

Köttur spáir fyrir um dauða vistmanna á hjúkrunarheimili

Óskar situr fyrir utan herbergi sjúklingas á Steere House Nursing and Rehabilitation Center á Rhode Island.
Óskar situr fyrir utan herbergi sjúklingas á Steere House Nursing and Rehabilitation Center á Rhode Island.
Köttur nokkur á hjúkrunarheimili á Rhode Island í Bandaríkjunum hefur óvenjulegan hæfileika til að segja fyrir um andlát vistmanna þar. Þegar Óskar, eins og kötturinn er nefndur, hjúfrar sig upp að einhverjum, veit starfsfólk heimilisins að viðkomandi á líklega ekki langt eftir. Þetta hefur Óskar gert í 25 skipti, og hafa vistmennirnir allir verið látnir innan fjögurra klukkustunda. Nú er svo komið að starfsfólk spítalans er farið að hringja í ættingja fólks ef að Óskar sýnir því áhuga, til að vara þá við yfirvofandi dauða þess.

Öldrunarlæknirinn Dr.David Dosa segir frá þessu í viðtali við New England Journal of Medicine. Hann segir kisa taka vinnuna sína alvarlega, og ekki vera fyrir það að láta kjassa sig.

Kötturinn Óskar, sem er tveggja ára, hefur verið gæludýr á heilabilunardeild Steere hjúkrunarheimilisins frá því hann var kettlingur. Á deildinni dvelja einstaklingar með Alzheimers, Parkinsons og fleiri hrörnunarsjúkdóma.

Þegar Óskar var hálfs árs gamall tóku starfsmenn deildarinnar eftir því að hann gekk um heimilið og hnusaði af fólki og skoðaði það. Svo settist hann við hliðina á fólki sem svo dó nokkrum tímum síðar.

Dr. Joan Teno, sérfræðingur í líknarmeðferð við Brown háskóla, segir köttinn betri en starfsfólk stofnunarinnar í að segja til um dauða sjúklinga.

Ekki er vitað hvort að hæfileiki Óskars er vísindalega mikilvægur, en Teno veltir því fyrir sér hvort að hann skynji þetta út af lykt, eða lesi eitthvað út úr hegðun hjúkrunarfræðinganna sem ólu hann upp.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×