Lífið

Kostnaðurinn við Skaupið 30 milljónir króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Indriði lét sitt ljós lýsa í Áramótaskaupinu 2016.
Indriði lét sitt ljós lýsa í Áramótaskaupinu 2016. Vísir/RÚV
Áramótaskaupið 2016 kostaði Ríkisútvarpið 30 milljónir króna í framleiðslu. Þetta kemur fram í svari Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra Sjónvarpsins, við fyrirspurn Vísis. Hann segir kostnaðinn við nýjasta skaupið á pari við kostnað fyrri ára.

Í fyrra var kostnaðurinn við skaupið í kringum 26 milljónir króna og var hann svipaður árið á undan, en þá sagði Skarphéðinn að kostnaðurinn hefði verið undir meðallagi.

Árin 2011 og 2012 var kostnaðurinn um 31 milljón króna. 

Leikstjóri Áramótaskaupsins 2016 var Jón Gnarr en hann, Sigurjón Kjartansson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson voru handritshöfundar. Um var að ræða „Fóstbræðraskaup“ þar sem meðlimir úr gríngenginu Fóstbræðrum, sem gerðu allt vitlaust á Stöð 2 fyrir tæpum tveimur áratugum, fóru með gamalkunn hlutverk ásamt því að brydda upp á nýju gríni inn á milli.

Skaupið fékk 6,2 í einkunn frá lesendum Vísis þetta árið en rúmlega 22 þúsund lesendur tóku þátt í könnuninni sem stóð frá gamlárskvöldi og að morgni 2. janúar. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×