Innlent

Kosning Bænda­sam­takanna um bú­vöru­samninga fram­lengd um viku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Niðurstöður úr kosningunni fást viku síðar en áætlað var í upphafi.
Niðurstöður úr kosningunni fást viku síðar en áætlað var í upphafi. vísir/stefán
Atkvæðagreiðsla félagsmanna Bændasamtaka Íslands hefur verið framlengd um viku sökum þess að rétt magn kjörseðla var ekki prentað og póstlagt í fyrstu atrennu.

„Við sendum lista til prentsmiðjunnar yfir þá sem áttu að fá útprentaða kjörseðla. Síðar uppfærðum við listann en fyrir mistök þá fór eldri útgáfa hans í prentun. Það var engin leið til að átta sig á þessu fyrr en kvartanir fóru að berast,“ segir Erna Bjarnadóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtakanna í samtali við Vísi. Aðspurð segist hún ekki vitað hve mörgum atkvæðaseðlum skeikaði.

Atkvæðagreiðslan hófst 7. mars og var gert ráð fyrir því að henni myndi ljúka 17. mars. Úrslitin áttu að liggja fyrir þann 22. mars. Sökum mistakanna hefur fresturinn til að kjósa verið framlengdur til 22. mars og verða úrslit kunngjörð þann 29. mars.

Atkvæðisrétt í kosningunum hafa allir félagsmenn Bændasamtakanna sem eru skráðir sem rekstaraðili á lögbýlinu. Hvert lögbýli getur haft fleiri en eitt atkvæði, til dæmis ef hjón standa saman að rekstrinum eða ef um félagsbú er að ræða. Á kjörskrá um nautgriparæktarsamninginn eru 1.234 en 2.881 um sauðfjársamninginn.

Kosningin er bæði rafræn og í póstkosningu. Útprentaðir kjörseðlar voru sendir á alla félagsmenn sem ekki höfðu aðgang að Bændatorgi samtakanna.

„Okkur þykir mjög leitt að þetta skuli hafa komið upp. Við munum reyna að bregðast við þannig að allir sem eiga rétt á að taka þátt í kosningunni geti gert það. Það er aðallega verst að þetta hafi ekki uppgötvast fyrr,“ segir Erna.


Tengdar fréttir

Spyr um áhrif samninganna

Svandís Svavarsdóttir þingmaður hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til landbúnaðarráðherra um hvort nýir búvörusamningar samræmist loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×