Körfubolti

Körfuboltalið frá Los Angeles meistari á ný | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Candace Parker fagnar eigandann Magic Johnson.
Candace Parker fagnar eigandann Magic Johnson. Vísir/Getty
Los Angeles á meistaralið á nýjan leik í bandaríska körfuboltanum. Það eru þó ekki lið Los Angeles Lakers eða Los Angeles Clippers heldur stelpurnar í Los Angeles Sparks. LA Sparks-liðið varð WNBA-meistari í nótt eftir dramatískan sigur í oddaleik um titilinn.

Los Angeles Sparks vann þá 77-76 sigur á Minnesota Lynx þökk sé sigurkörfu frá Nneka Ogwumike aðeins 3,1 sekúndu fyrir leikslok. Þetta var fyrsti titill Los Angeles Sparks í fjórtán ár en Minnesota Lynx var ríkjandi WNBA-meistari.

Candace Parker var með 28 stig og 12 fráköst í úrslitaleiknum og var kosin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Candace Parker hefur verið lengi í deildinni en var þarna að vinna sinn fyrsta WNBA-titil.

Candace Parker vann á sínum tvo háskólatitla undir stjórn Pat Summitt en hin sigursæla Summitt lést á þessu ári og bandarískir fjölmiðlar voru duglegir að ýja að því að hún hafi verið með Parker í þessum leikjum.

Eitt er víst að Candace Parker hefur mátt þola mikla gagnrýni á sínum ferli en þetta er hennar níunda tímabil. Hún hefur tvisvar verið kosin besti leikmaður deildarinnar á ferlinum en nú náði hún loksins í stóra bikarinn.

„Ég hefði ekki viljað fara í þetta ferðalag með neinum öðrum. Það er magnað hvað það er gaman að spila þegar þú ert með svona gott fólk í kringum þig,“ sagði Candace Parker.

„Ég hef aldrei verið í kringum leikmann sem hefur fengið svona harða gagnrýni. Ég svo ánægður fyrir hennar hönd,“ sagði Brian Agler, þjálfari nýkrýndra WNBA-meistara.

Nneka Ogwumike skoraði 12 stig í lokaleiknum en hún var kosin mikilvægasti leikmaður deildarinnar á tímabilinu.

Leikurinn og öll úrslitin voru gríðarlega jöfn. Liðin skiptust sem dæmi 24 sinnum á að hafa forystuna í leiknum í nótt.

Maya Moore var með 23 stig og 11 stoðsendingar en liði Minnesota Lynx mistókst að vinna sinn fjórða WNBA-titil og jafna þar með met Houston Comets frá 1997 til 2000.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×