Innlent

Konur sóttu um en karlarnir metnir hæfari

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Nýlega voru þrír karlar ráðnir í yfirmannsstöður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mjög hallar á konur innan lögreglunnar. Mynd/lögreglan
Nýlega voru þrír karlar ráðnir í yfirmannsstöður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mjög hallar á konur innan lögreglunnar. Mynd/lögreglan
 „Það var sérstök hæfnisnefnd innan lögreglunnar sem fór yfir umsóknirnar og það var niðurstaða nefndarinnar og síðar innanríkisráðuneytisins að þeir þrír sem ráðnir voru væru hæfastir,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Um fimmtíu, þar af nokkrar konur, sóttu um þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna á höfuðborgarsvæðinu þegar þær voru auglýstar lausar til umsóknar fyrr á árinu.

„Það voru hæfar konur á meðal umsækjenda en þær voru ekki á meðal þeirra þriggja hæfustu í þessar stöður,“ segir Stefán og bætir við að mat á umsækjendum byggist meðal annars á starfsreynslu og þeim verkefnum sem þeir hafa sinnt til þessa innan lögreglunnar.

Stefán Eiríksson
Verulega hallar á konur innan lögreglunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra voru 23 karlar í stöðu yfirlögregluþjóns í febrúar síðastliðnum en engin kona. 21 karl er aðstoðaryfirlögregluþjónn en tvær konur.

Síðastliðið haust lýsti Stefán þeirri skoðun sinni að það ætti að auka hlut kvenna í yfirstjórn lögreglunnar.

„Við getum ekki annað en skipað þá sem eru hæfastir,“ segir Stefán.

„Ég veit um mjög hæfar konur sem sóttu um þessar stöður eins og margar aðrar yfirmannastöður hjá lögreglunni í gegnum tíðina.

Auðvitað vil ég trúa því að yfirstjórn lögreglunnar sé ærleg í sínum ráðningum en á sama tíma er ég full vantrausts og velti því fyrir mér hvort jafnréttisumræðan hafi liðið undir lok innan lögreglunnar,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir, fulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hún hefur áður tjáð sig um jafnréttismál innan lögreglunnar.

Eyrún Eyþórsdóttir
Eyrún segir að ráðningarnar nú séu ekki í anda þeirrar umræðu sem fór fram síðastliðið sumar í kjölfar niðurstöðu rannsóknar sem gerð var á vinnumenningu innan lögreglunnar.

„Í þeirri rannsókn kom skýrt fram að lögreglukonur ættu erfitt uppdráttar í starfi sínu. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til að konur væru að sækja um yfirmannsstöður jafnvel þótt almennt teldu lögreglumenn svo ekki vera,“ segir Eyrún og bætir við að hún hafi sagt í fyrra að nú myndi yfirstjórnin ráða eina til tvær konur í yfirmannsstöður og síðan yrði ekki meira gert.

„En innst inni vonaði ég svo sannarlega að ég hefði rangt fyrir mér en annað er komið á daginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×