Innlent

Konan nýtur nú verndar

Una Sighvatsdóttir skrifar
Það var snemma á mánudagsmorgni í síðustu viku sem karlmaður villti á sér heimildir til að komast inn á heimili fjölskyldu hér við Móabarð í Hafnarfirði þar sem hann réðst á konu sem var ein heima með ungbarn.

Lögreglan hefur leitað mannsins árangurslaust síðan. Í gærkvöldi réðst síðan sami maður aftur til atlögu á heimilið með grófu ofbeldi gagnvart konunni. Málið er í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild, en að sögn lögreglu er við litlar upplýsingar að styðjast um það hver maðurinn er.

Lögregla hefur gefið út þá lýsingu á manninum að hann sé íslenskur, talinn vera á aldrinum 35-45 ára, um 180 sentimetrar á hæð og fölleitur. Þegar fyrri árásin var gerð hafði hann svarta húfu á höfði og svarta hanska.

Fjölmennt lið lögreglu var kallað út að Móabarði um áttaleytið í gærkvöldi þegar seinni árásin var tilkynnt, en árásarmaðurinn var þá þegar á bak og burt. Fréttastofa ræddi við nokkra íbúa við Móabarð í dag sem sögðust slegnir óhug vegna málsins en höfðu sjálfir ekki orðið varir óeðlilega mannaferða.

Yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu sagði í samtali við Vísi.is í dag að báðar árásirnar væru alvarlegar en vildi að öðru leyti ekki tjá sig þar sem rannsókn væri á afar viðkvæmu stigi. Samkvæmt heimildum fréttastofu nýtur konan nú viðeigandi verndar.

Þeir sem geta veitt lögreglu upplýsingar um manninn og ferðir hans eru beðnir að hafa samband við lögreglu annað hvort í síma, tölvupósti eða á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×