Innlent

Kona í annarlegu ástandi reyndi að ræna barnavagni við Kaffi París

Birgir Olgeirsson skrifar
Atvikið átti sér stað fyrir utan Kaffi París við Austurvöll en myndin er úr safni.
Atvikið átti sér stað fyrir utan Kaffi París við Austurvöll en myndin er úr safni. Vísir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók konu í annarlegu ástandi á Austurvelli á þriðja tímanum í dag. Konan hafði fyrir handtökuna reynt að ræna barnavagni af konu sem sat fyrir utan kaffihúsið ásamt móður sinni.

„Hún hleypur að barnavagninum og ætlar að taka hann. Ég gríp í barnavagninn og þá reynir hún að sparka í mig en hleypur svo í burtu,“ segir Ester Magnúsdóttir en fjögurra mánaða gamalt barn Esterar var í vagninum.

Hún segir konuna hafa hlaupið út á túnið á Asturvelli þar sem hún fækkaði fötum. Kona sem sat á næsta borði við Ester hafði samband við lögreglu og greinir henni frá þessu atviki. Lögreglumenn mættu á vettvang og handtóku konuna en Ester segir það ekki hafa gerst tafarlaust.

„Lögreglan kemur á svæðið og ræðir við konuna og labbar í burtur. Ég hleyp að lögreglunni og spyr hvort henni sé alvara að ætla ekki að handtaka konuna,“ segir Ester sem segist hafa fengið þau svör frá lögreglumönnum að konan hefði ekki sýnt af sér ólöglegt athæfi. Svo fór að lokum að konan var handtekin. 

Kristján Ólafur Guðnason hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi að konan teljist til góðkunningja lögreglu vegna vegna vímuefnavanda. Hún gistir nú fangageymslu og verður yfirheyrð þegar ástand hennar lagast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×