Innlent

Kol og kjarnorka í útflutningsbókhaldið

Sveinn Arnarsson skrifar
Vinnsla HB Granda er öflug á Vopnafirði.
Vinnsla HB Granda er öflug á Vopnafirði. mynd/jón sigurðarson
Kolefnisfótspor íslenskrar framleiðslu hefur aukist eftir að íslensk orkufyrirtæki hófu að selja svokallaðar upprunaábyrgðir á grænni íslenskri orku úr landi.

„Nú eru einstaka kaupendur farnir að kalla eftir kolefnisfótspori vörunnar og hafa sum fyrirtæki, líkt og HB Grandi, hafið skráningu á loftslagsbókhaldi,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda. „Afleiðingar sölu upprunaábyrgða úr landi eru þær að íslensk fyrirtæki þurfa þá að skrá kjarnorku og kol í bókhald sitt.“

Íslensk orkufyrirtæki hófu þátttöku í kerfi með upprunaábyrgðir árið 2011. Stærstu orkufyrirtækin hafa fengið útgefnar upprunaábyrgðir hjá Landsneti og hafa þær að langstærstum hluta verið seldar kaupendum utan Íslands. Hins vegar er vitað að kaupendur upprunaábyrgða erlendis nýta sér ekki orkuna.

Hér á landi er nærri allt rafmagn á ársgrundvelli framleitt á umhverfisvænan hátt og er Ísland leiðandi í heiminum þegar kemur að grænni orku. Fyrirtæki hérlendis nýta þessa grænu orku en þurfa að bókfæra kol og kjarnorku. „Þetta hefur vakið undrun okkar sem kaupenda hreinnar orku. Við skorum á stjórnvöld að koma í veg fyrir sölu á upprunaábyrgðum erlendis og standa þannig vörð um orðspor íslenskra sjávarafurða,“ segir Garðar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×