Enski boltinn

Koeman og Agüero bestir í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Agüero skoraði fimm mörk í janúar.
Sergio Agüero skoraði fimm mörk í janúar. vísir/getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Southampton, var kjörinn stjóri mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni og Sergio Agüero, framherji Manchester City, besti leikmaður úrvalsdeildarinnar í janúarmánuði.

Koeman stýrði Dýrlingunum til sigurs í þremur af fjórum leikjum nýs árs í úrvalsdeildinni, en hann kláraði mánuðinn með 1-0 sigri á útivelli gegn Manchester United.

Áður voru lærisveinar Koeman í Southampton búnir að vinna West Brom og Watford, en Dýrlingarnir eru hægt og sígandi að koma sér í harða baráttu um Evrópusæti.

Koeman hafði naumlega betur í baráttunni við Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Tottenham, sem einnig vann þrjá leiki af fjórum í mánuðinum sem leið.

Sergio Agüero hlaut nafnbótina leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn síðan í nóvember 2014.

Argentínumaðurinn skoraði fimm mörk í fjórum leikjum og lagði upp eitt mark til viðbótar auk þess sem hann átti 79 heppnaðar sendingar.

Agüero hafði betur í samkeppni við Jermain Defoe sem einnig skoraði fimm mörk fyrir Sunderland. Roberto Firmino hjá Liverpool kom einnig til greina fyrir sín fjögur mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×